Körfubolti

NBA í nótt: Chicago og Miami á sigurbraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Chicago Bulls og Miami Heat eru bæði búin að taka 2-0 forystu í einvígum sínum í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Chicago vann sigur á Indiana, 96-90, í jöfnum leik þar sem að Derrick Rose fór enn og aftur á kostum með liði þeirra rauðklæddu. Hann skoraði 36 stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Kyle Korver skoraði mikilvæga körfu þegar rúm mínúta var til leiksloka er hann kom Chicago fimm stigum yfir, 90-85, með þriggja stiga körfu.

Í báðum leikjum liðanna í rimmunni hefur Indiana haft í fullu tré við Chicago sem náði besta árangri allra liða í NBA-deildinni í vetur. Rimman færist nú yfir til Indianapolis þar sem að næstu tveir leikir fara fram.

Chicago var með frumkvæðið lengst af í leiknum í nótt en Indiana náði svo forystunni um miðjan fjórða leikhluta. Þá tók Rose til sinna mála og skoraði níu af næstu ellefu stigum Chicago í leiknum.

Carlos Boozer skoraði sautján stig fyrir Chicago og tók þar að auki sextán fráköst. Danny Granger skoraði nítján stig fyrir Indiana en leikstjórnandinn Darren Collison meiddist á ökkla í fyrri hálfleik og er óvíst um þátttöku hans í næsta leik liðanna.

Miami vann sannfærandi sigur á Philadelphia, 94-73. Yfirburðir Miami voru gríðarlegir en staðan í hálfleik var 59-31.

LeBron James, Chris Bosh og Dwyane Wade skoruðu hver fyrir sig meira í fyrri hálfleik en allt byrjunarlið Philadelphia til samans. Það segir sína sögu.

James endaði með 29 stig í leiknum, Bosh var með 21 stig og ellefu fráköst og Wade fjórtán stig. Miami hefur nú unnið sautján af síðustu 20 leikjum sínum í deildinni.

Þetta var næstlægsta stigaskor Philadelphia í úrslitakeppninni í 56 ár. Thaddeus Young skoraði átján stig fyrir liðið og Evan Turner fimmtán. Byrjunarlið Miami endaði á að skora 76 stig samanlagt í leiknum en Philadelphia samtals 29.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×