Tíska og hönnun

Ríkir ekki jafnrétti í grafískri hönnun

Bergþóra Jónsdóttir. Mynd/Vilhelm
Bergþóra Jónsdóttir. Mynd/Vilhelm
Tímaritið Mæna er unnið af nemendum á þriðja ári í grafískri hönnun við LHÍ og kom önnur útgáfa þess út í kringum HönnunarMars. Í tímaritinu er meðal annars fjallað um þátt kvenna í grafískri hönnun þar sem konur eru hlutgerðar og hlutir kvengerðir.

Að sögn Bergþóru Jónsdóttur, nemanda í grafískri hönnun, er tímaritið samstarfsverkefni nemenda og kennara við LHÍ og viðurkennir hún að margt hafi komið henni á óvart þegar þáttur kvenna í grafískri hönnun var skoðaður.

"Það var margt sem kom á óvart þó maður vissi svo sem fyrirfram að það ríkir ekki jafnrétti í þessum bransa," segir Bergþóra og tekur sem dæmi hversu fáar konur skipa stjórnunar- og hönnunarstöður hjá auglýsingastofum landsins. "Mér fannst það skjóta skökku við, sérstaklega í ljósi þess að neyslustýring heimila er í miklum mæli í höndum kvenna og þess vegna beinist markaðssetning oftast beint að þeim."

Ýmsir fagmenn og -konur lögðu sitt að mörkum með greinaskrifum í tímaritið en nemendur sáu alfarið um útlit og útgáfu þess og viðurkennir Bergþóra að það hafi gengið misjafnlega.

"Það er frekar erfitt að setja tuttugu grafíska hönnuði í einn hóp og fá þá til að samræmast um útlit á einhverju. Þetta hafðist þó á endanum og við erum öll mjög sátt við útkomuna," segir hún glaðlega.

Öll eintök af Mænu ruku út á HönnunarMars en netútgáfu blaðsins verður aðgengileg á næstunni á slóðinni maena.is. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.