Skömm og heiður Þorvaldur Gylfason skrifar 24. mars 2011 06:00 Ósiðir leggjast jafnan af um síðir. Þrælahald var víða bannað með lögum um miðja 19. öld. Bretar riðu á vaðið, þegar þeir afnámu þrælahald í nýlendum sínum 1833. Bandaríkjamenn hurfu frá þrælahaldi að loknu borgarastríði 1865. Sádi-Arabía og Jemen bönnuðu þrælahald ekki fyrr en 1962 og Máritanía 1981, sumir segja 2007. Þrælahald er nú alls staðar bannað með lögum, en það tíðkast þó sums staðar enn í reynd, til dæmis í Afganistan. Einvígi tíðkuðust í þúsund ár, en þau lögðust endanlega af á 20. öld. Alexander Hamilton, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna (mynd hans prýðir tíu dala seðilinn), féll í einvígi fyrir sitjandi varaforseta Bandaríkjanna 1804. Púskín, höfuðskáld Rússa, féll í einvígi 1837, löngu fyrir fertugt. Kínverjar reyrðu fætur stúlkubarna í þúsund ár. Reyrðir fætur voru fastur liður í kerfisbundinni kúgun kvenna og olli sárum kvölum, bæklun og sýkingum. Siðurinn lagðist ekki af fyrr en með lögbanni 1912. Enn eru til kínverskar konur með örsmáa fætur. Sjálfur hef ég hitt gamla Evrópumenn með djúp einvígisör yfir þvert andlitið.Óttinn við vansæmd Hvers vegna lögðust þessir ósiðir af? Létu þrælahaldarar, einvígisseggir og kínverskir foreldrar sér segjast? Tóku þeir rökum? Varð þeim smám saman ljóst, að þrælar, einvígi og reyrðir fætur stríða gegn góðum siðum? Ekki telur Kwame Anthony Appiah svo vera. Hann fæddist á Englandi, ólst upp í Gönu, er prófessor í heimspeki í Princetonháskóla í Bandaríkjunum og hefur skrifað bók um málið (The Honor Code, 2010). Þar færir hann rök að því, að greinarmunur góðs og ills, skilningur á muninum á réttu og röngu, hafi ekki skipt sköpum. Margir menn börðust lengi gegn þrælahaldi. Einna kunnastur meðal Bandaríkjamanna í þeim hópi var rithöfundurinn og háðfuglinn Mark Twain. Margar bækur og greinar voru með líku lagi birtar gegn einvígjum sem fráleitri sóun á mannslífum og gegn því að reyra fætur sem grimmilegri meðferð á varnarlausum börnum. Ekkert af þessu hreif eitt sér, segir Appiah. Það, sem hreif, var á endanum óttinn við álit annarra: óttinn við vansæmd. Það, sem hreif, var óttinn við, að mansal kallaði vansæmd yfir þrælahaldara í augum annarra. Það, sem hreif, var óttinn við, að vansæmdin, sem hlytist af móðgun, teldist minni en vansæmdin, sem fylgir því að hefna móðgunar með manndrápi. Það, sem hreif, var óttinn við, að Kínverjar myndu kalla vansæmd yfir sig í augum umheimsins, héldu þeir áfram að reyra fætur stúlkubarna.Hvað er sæmd? Appiah skilgreinir sæmd sem réttmætt tilkall til virðingar. Bankaþjófur eða eiturlyfjasali getur notið virðingar um skeið og jafnvel vafið heilu samfélagi um fingur sér, en hann á ekki tilkall til virðingar. Þrá eftir virðingu er fánýt, þótt hún sé algeng. Réttmætt tilkall til virðingar er annað mál. Vansæmd vekur ótta, þar eð hún sviptir menn tilkalli til virðingar.SæmdarmorðAppiah tekur nýlegt dæmi til að skýra málið. Fyrir tíu árum vildi ung kona í Pakistan, laganemi, skilja við mann sinn. Eiginmaðurinn var læknir eins og móðir konunnar, og faðir hennar var formaður viðskiptaráðs á staðnum. Einn góðan veðurdag, þegar konan unga sat á fundi á með lögfræðingi sínum, einum helzta mannréttindafrömuði landsins, ruddist móðir konunnar inn á skrifstofu lögfræðingsins með vopnuðum manni, sem gerði sér lítið fyrir og skaut ungu konuna til ólífis fyrir framan lögfræðinginn. Móðurinni þótt það bersýnilega engin vansæmd að láta myrða varnarlausa dóttur sína fyrir það eitt, að hún vildi skilja við mann sinn. Foreldrar konunnar töldu sig þvert á móti vera að verja heiður fjölskyldunnar. Sæmdarmorð eru framin hundruðum saman í Pakistan á hverju ári líkt og á Ítalíu fyrir hundrað árum og hér heima á þjóðveldisöld. Morð eru að vísu ólögleg meðal múslíma ekki síður en meðal kristinna manna, en það dugir ekki til. Sumu fólki þykir nauðsynlegt að fremja morð, ef aðrir heimta morð. Það telur heiður sinn í húfi. Þess vegna þarf að snúa öðrum, stundum jafnvel almenningsálitinu, svo að fleira fólk megi sjá og skilja, að því fylgir engin sæmd að myrða varnarlausa konu fyrir það eitt, að hún vill skilja við manninn sinn, heldur vansæmd. Þessi hugsun nær yfir marga aðra ósiði samtímans, svo sem nautaat, pyntingar, umskurð og mannréttindabrotin í kvótakerfinu samkvæmt áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Ósiðir leggjast jafnan af um síðir. Þrælahald var víða bannað með lögum um miðja 19. öld. Bretar riðu á vaðið, þegar þeir afnámu þrælahald í nýlendum sínum 1833. Bandaríkjamenn hurfu frá þrælahaldi að loknu borgarastríði 1865. Sádi-Arabía og Jemen bönnuðu þrælahald ekki fyrr en 1962 og Máritanía 1981, sumir segja 2007. Þrælahald er nú alls staðar bannað með lögum, en það tíðkast þó sums staðar enn í reynd, til dæmis í Afganistan. Einvígi tíðkuðust í þúsund ár, en þau lögðust endanlega af á 20. öld. Alexander Hamilton, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna (mynd hans prýðir tíu dala seðilinn), féll í einvígi fyrir sitjandi varaforseta Bandaríkjanna 1804. Púskín, höfuðskáld Rússa, féll í einvígi 1837, löngu fyrir fertugt. Kínverjar reyrðu fætur stúlkubarna í þúsund ár. Reyrðir fætur voru fastur liður í kerfisbundinni kúgun kvenna og olli sárum kvölum, bæklun og sýkingum. Siðurinn lagðist ekki af fyrr en með lögbanni 1912. Enn eru til kínverskar konur með örsmáa fætur. Sjálfur hef ég hitt gamla Evrópumenn með djúp einvígisör yfir þvert andlitið.Óttinn við vansæmd Hvers vegna lögðust þessir ósiðir af? Létu þrælahaldarar, einvígisseggir og kínverskir foreldrar sér segjast? Tóku þeir rökum? Varð þeim smám saman ljóst, að þrælar, einvígi og reyrðir fætur stríða gegn góðum siðum? Ekki telur Kwame Anthony Appiah svo vera. Hann fæddist á Englandi, ólst upp í Gönu, er prófessor í heimspeki í Princetonháskóla í Bandaríkjunum og hefur skrifað bók um málið (The Honor Code, 2010). Þar færir hann rök að því, að greinarmunur góðs og ills, skilningur á muninum á réttu og röngu, hafi ekki skipt sköpum. Margir menn börðust lengi gegn þrælahaldi. Einna kunnastur meðal Bandaríkjamanna í þeim hópi var rithöfundurinn og háðfuglinn Mark Twain. Margar bækur og greinar voru með líku lagi birtar gegn einvígjum sem fráleitri sóun á mannslífum og gegn því að reyra fætur sem grimmilegri meðferð á varnarlausum börnum. Ekkert af þessu hreif eitt sér, segir Appiah. Það, sem hreif, var á endanum óttinn við álit annarra: óttinn við vansæmd. Það, sem hreif, var óttinn við, að mansal kallaði vansæmd yfir þrælahaldara í augum annarra. Það, sem hreif, var óttinn við, að vansæmdin, sem hlytist af móðgun, teldist minni en vansæmdin, sem fylgir því að hefna móðgunar með manndrápi. Það, sem hreif, var óttinn við, að Kínverjar myndu kalla vansæmd yfir sig í augum umheimsins, héldu þeir áfram að reyra fætur stúlkubarna.Hvað er sæmd? Appiah skilgreinir sæmd sem réttmætt tilkall til virðingar. Bankaþjófur eða eiturlyfjasali getur notið virðingar um skeið og jafnvel vafið heilu samfélagi um fingur sér, en hann á ekki tilkall til virðingar. Þrá eftir virðingu er fánýt, þótt hún sé algeng. Réttmætt tilkall til virðingar er annað mál. Vansæmd vekur ótta, þar eð hún sviptir menn tilkalli til virðingar.SæmdarmorðAppiah tekur nýlegt dæmi til að skýra málið. Fyrir tíu árum vildi ung kona í Pakistan, laganemi, skilja við mann sinn. Eiginmaðurinn var læknir eins og móðir konunnar, og faðir hennar var formaður viðskiptaráðs á staðnum. Einn góðan veðurdag, þegar konan unga sat á fundi á með lögfræðingi sínum, einum helzta mannréttindafrömuði landsins, ruddist móðir konunnar inn á skrifstofu lögfræðingsins með vopnuðum manni, sem gerði sér lítið fyrir og skaut ungu konuna til ólífis fyrir framan lögfræðinginn. Móðurinni þótt það bersýnilega engin vansæmd að láta myrða varnarlausa dóttur sína fyrir það eitt, að hún vildi skilja við mann sinn. Foreldrar konunnar töldu sig þvert á móti vera að verja heiður fjölskyldunnar. Sæmdarmorð eru framin hundruðum saman í Pakistan á hverju ári líkt og á Ítalíu fyrir hundrað árum og hér heima á þjóðveldisöld. Morð eru að vísu ólögleg meðal múslíma ekki síður en meðal kristinna manna, en það dugir ekki til. Sumu fólki þykir nauðsynlegt að fremja morð, ef aðrir heimta morð. Það telur heiður sinn í húfi. Þess vegna þarf að snúa öðrum, stundum jafnvel almenningsálitinu, svo að fleira fólk megi sjá og skilja, að því fylgir engin sæmd að myrða varnarlausa konu fyrir það eitt, að hún vill skilja við manninn sinn, heldur vansæmd. Þessi hugsun nær yfir marga aðra ósiði samtímans, svo sem nautaat, pyntingar, umskurð og mannréttindabrotin í kvótakerfinu samkvæmt áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007.