Stjórnlagaóráð Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. febrúar 2011 09:04 Það er kannski lýsandi fyrir það hvað pólitíkin á Íslandi er orðin undarleg, að út úr starfi starfshópsins, sem átti að bregðast við ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna, kom engin tillaga um þá leið sem liggur beinast við; að kjósa upp á nýtt. Meirihluti allra þingflokka nema Sjálfstæðisflokksins leggur til að þeir 25, sem urðu hlutskarpastir í kosningunni, verði skipaðir af Alþingi í svokallað stjórnlagaráð, sem á síðan að gegna sama hlutverki og stjórnlagaþinginu var ætlað. Minnihluti sjálfstæðismanna vill hins vegar hætta við allt saman og setja endurskoðun stjórnarskrárinnar á ný í hendur Alþingis. Í áliti meirihlutans er fjallað um þann möguleika að kjósa upp á nýtt og sagt að það sé eðlilegasta leiðin út frá lagalegu sjónarmiði. Bent er á að þetta sé einföld leið, taki skamman tíma og sá möguleiki sé fyrir hendi að kjósa samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave til að spara peninga. Meirihlutinn færir í raun engin rök fram gegn þessum kosti - en leggur engu að síður til aðra leið og mun síðri. Í minnihlutaáliti Sjálfstæðisflokksins segir að Alþingi megi ekki víkja sér undan því að endurskoða stjórnarskrána "enda ekki ástæða til". Sú ástæða er reyndar til - getuleysi þingsins í 65 ár að ráðast í þá endurskoðun, sem stefnt var að strax eftir lýðveldisstofnun. Málið hefur alltaf lent ofan í skotgröfum flokks- og kjördæmishagsmuna og þess vegna var brýnt að halda stjórnlagaþing til að taka af skarið í ýmsum álitamálum. Leið uppkosningar er nærtækust, hvað sem líður tillögum starfshópsins. Skipan stjórnlagaráðs er ótæk af ýmsum ástæðum. Með henni er gengið gegn niðurstöðu Hæstaréttar. Við myndum reka upp stór augu ef þær fréttir bærust frá einhverju nágrannaríkinu að æðsti dómstóll landsins hefði úrskurðað kosningar ógildar, en þjóðþingið sett lög um að úrslit þeirra skyldu engu að síður standa. Við myndum halda að eitthvað væri bogið við lýðræðið í því landi. Umboð fulltrúanna sem sitja eiga í stjórnlagaráðinu var þegar veikt vegna lítillar kjörsóknar. Það verður enn þá veikara með því að Alþingi stytti sér leið framhjá niðurstöðu Hæstaréttar. Um leið eykst hættan á að þessi tilraun til að endurskoða stjórnarskrána renni út í sandinn eins og allar hinar. Síðast en ekki sízt er uppkosning eina leiðin sem hægt er að fara til að standa vörð um heiður og orðstír Íslands sem lýðræðis- og réttarríkis. Hún er sú leið, sem yrði farin í hvaða öðru lýðræðisríki sem er - og sú leið sem farin hefur verið áður þegar kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar í sveitarstjórnum hér á landi. Þau rök sem heyrzt hafa, að það sé svo flókið að kjósa til stjórnlagaþings að almenningi sé ekki treystandi til að gera það samhliða atkvæðagreiðslu um Icesave, eru léttvæg. Ef þjóðinni er treystandi til að mynda sér skoðun á vaxtakjörum, líkum á endurheimtum í búi Landsbankans, gengisþróun á næstu árum og ýmsum lögfræðilegum atriðum í EES-samningnum til að geta tekið afstöðu til Icesave-samningsins, er henni treystandi til að setja númer fyrir framan nöfn eins til 25 manna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Munu bara allir fá dánaraðstoð? Bjarni Jónsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Mannsæmandi lífeyrislaun strax Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Tryggjum frelsi til handfæraveiða – eflum sjávarbyggðirnar Eyjólfur Ármannsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Verja þarf friðinn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun Græðgin er komin út fyrir öll mörk Sigurjón Þórðarson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun
Það er kannski lýsandi fyrir það hvað pólitíkin á Íslandi er orðin undarleg, að út úr starfi starfshópsins, sem átti að bregðast við ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna, kom engin tillaga um þá leið sem liggur beinast við; að kjósa upp á nýtt. Meirihluti allra þingflokka nema Sjálfstæðisflokksins leggur til að þeir 25, sem urðu hlutskarpastir í kosningunni, verði skipaðir af Alþingi í svokallað stjórnlagaráð, sem á síðan að gegna sama hlutverki og stjórnlagaþinginu var ætlað. Minnihluti sjálfstæðismanna vill hins vegar hætta við allt saman og setja endurskoðun stjórnarskrárinnar á ný í hendur Alþingis. Í áliti meirihlutans er fjallað um þann möguleika að kjósa upp á nýtt og sagt að það sé eðlilegasta leiðin út frá lagalegu sjónarmiði. Bent er á að þetta sé einföld leið, taki skamman tíma og sá möguleiki sé fyrir hendi að kjósa samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave til að spara peninga. Meirihlutinn færir í raun engin rök fram gegn þessum kosti - en leggur engu að síður til aðra leið og mun síðri. Í minnihlutaáliti Sjálfstæðisflokksins segir að Alþingi megi ekki víkja sér undan því að endurskoða stjórnarskrána "enda ekki ástæða til". Sú ástæða er reyndar til - getuleysi þingsins í 65 ár að ráðast í þá endurskoðun, sem stefnt var að strax eftir lýðveldisstofnun. Málið hefur alltaf lent ofan í skotgröfum flokks- og kjördæmishagsmuna og þess vegna var brýnt að halda stjórnlagaþing til að taka af skarið í ýmsum álitamálum. Leið uppkosningar er nærtækust, hvað sem líður tillögum starfshópsins. Skipan stjórnlagaráðs er ótæk af ýmsum ástæðum. Með henni er gengið gegn niðurstöðu Hæstaréttar. Við myndum reka upp stór augu ef þær fréttir bærust frá einhverju nágrannaríkinu að æðsti dómstóll landsins hefði úrskurðað kosningar ógildar, en þjóðþingið sett lög um að úrslit þeirra skyldu engu að síður standa. Við myndum halda að eitthvað væri bogið við lýðræðið í því landi. Umboð fulltrúanna sem sitja eiga í stjórnlagaráðinu var þegar veikt vegna lítillar kjörsóknar. Það verður enn þá veikara með því að Alþingi stytti sér leið framhjá niðurstöðu Hæstaréttar. Um leið eykst hættan á að þessi tilraun til að endurskoða stjórnarskrána renni út í sandinn eins og allar hinar. Síðast en ekki sízt er uppkosning eina leiðin sem hægt er að fara til að standa vörð um heiður og orðstír Íslands sem lýðræðis- og réttarríkis. Hún er sú leið, sem yrði farin í hvaða öðru lýðræðisríki sem er - og sú leið sem farin hefur verið áður þegar kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar í sveitarstjórnum hér á landi. Þau rök sem heyrzt hafa, að það sé svo flókið að kjósa til stjórnlagaþings að almenningi sé ekki treystandi til að gera það samhliða atkvæðagreiðslu um Icesave, eru léttvæg. Ef þjóðinni er treystandi til að mynda sér skoðun á vaxtakjörum, líkum á endurheimtum í búi Landsbankans, gengisþróun á næstu árum og ýmsum lögfræðilegum atriðum í EES-samningnum til að geta tekið afstöðu til Icesave-samningsins, er henni treystandi til að setja númer fyrir framan nöfn eins til 25 manna.