Körfubolti

Kobe Bryant: Mér líður ömurlega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant
Kobe Bryant Mynd/AP

Kobe Bryant var ekki kátur á blaðamannafundi á milli fjórða og fimmta leiks Los Angeles Lakers og Boston Celtics í lokaúrslitum NBA-deildarinnar.

Kobe Bryant hefur aðeins skorað samtals þrjár körfur í fjórða leikhluta í síðustu tveimur leikjum liðanna og gat ekki komið í veg fyrir að Boston jafnaði einvígið í síðasta leik.

Fimmti leikurinn og sá síðasti í Boston fer fram í kvöld. Leikurinn hefst á miðnætti að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Mér líður ömurlega," var það fyrsta sem kom upp úr Kobe Bryant á blaðamannafundinum. Hann er ekki ánægður með frammistöðu sína eða liðsins gegn sterku varnarliði Boston sem hefur tekist mun betur að stoppa Bryant en liðunum í Vesturdeildinni.

„Þeir vilja alls ekki að ég vinni þá þannig að þeir setja þrjá menn á mig," sagði Kobe Bryant um skýringu þess að hann hefur ekki fundið sig á úrslitastundu í síðustu leikjum.

„Þetta er ekkert sem ég hef ekki séð áður. Þegar þú vinnur svona leiki eins og leik þrjú þá er enginn að tala um þetta af því að við nýttum okkur þetta. Þegar við töpum þá fara hinsvegar allir að tala um þetta. Þetta er hluti af ferlinu," sagði Kobe Bryant sem er búinn að skora 28,3 stig að meðaltali í úrslitaeinvíginu en hefur aðeins hitt úr 41 prósent skota sinna.

Kobe Bryant er enn að bíða eftir fyrsta sigrinum á Boston Celtics í úrslitakeppni og hann sjálfur hefur sagt að hann geti ekki gert tilkall til þess að vera besti leikmaður Los Angeles Lakers frá upphafi fyrr en honum takist að vinna erkifjendurna í Celtics.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×