Körfubolti

NBA í nótt: Arenas góður í sigri Washington

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gilbert Arenas fagnar sigrinum í nótt.
Gilbert Arenas fagnar sigrinum í nótt. Mynd/AP

Gilbert Arenas átti góðan leik þegar að Washington vann góðan sigur á Philadelphia, 104-97, í NBA-deildinni í nótt.

Mikið hefur verið fjallað um það þegar að Arenas dró upp byssu í búningsklefa liðsins á jóladag og ógnaði liðsfélaga sínum með henni vegna rifrildis. Það virtist þó ekki hafa áhrif á liðið í nótt.

Washington var reyndar undir þegar tæpar sex mínútur voru til leiksloka, 90-86, en skoraði þá tíu stig í röð og lét forystuna aldrei af hendi eftir það. Washington lenti mest átján stigum undir í leiknum.

Antawn Jamison skoraði 32 stig í leiknum og var með fjórtán fráköst en Arenas var með nítján stig og fjórtán stoðsendingar. Nick Young var með 21 stig.

Charlotte vann Chicago, 113-108. Gerald Wallace var með 32 stig og þeir Stephen Jackson og Flip Murray 25 hvor.

Milwaukee vann New Jersey, 98-76. Andrew Bogut skoraði átján stig, þar af fjórtán í síðari hálfleik.

Indiana vann Orlando, 97-90, þar sem Roy Hibbert bætti persónulegt met með því að skora 26 stig í leiknum.

Dallas vann Detroit, 98-93. Jason Terry var með 26 stig, Dirk Nowitzky 22 en þetta var tíunda tap Detroit í röð.

Denver vann Golden State, 123-122. Það var JR Smith sem tryggði Denver sigurinn með tveimur vítaskotum þeegar 0,4 sekúndur voru eftir.

Phoenix vann Sacramento, 113-109. Steve Nash var með 30 stig og tólf stoðsendingar og Amare Stoudemire 24 stig.

Memphis vann Portland, 109-105. OJ Mayo skoraði 27 stig fyrir Memphis sem skoraði þrettán af síðustu fjórtán stigum leiksins.

LA Lakers vann Houston, 88-79. Andrew Bynum skoraði 24 stig í leiknum, þar af ellefu í síðasta leikhluta.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×