Körfubolti

NBA: Boston burstaði Cleveland - LeBron á leiðinni í sumarfrí?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Garnett var góður í nótt.
Kevin Garnett var góður í nótt. Mynd/AP
Boston Celtics fór illa með LeBron James og félaga í Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í nótt og er Boston því komið 3-2 yfir í einvíginu. Boston vann leikinn með 32 stiga mun, 120-88, og getur tryggt sér sæti í úrslitum Austurdeildarinnar með sigri á heimavelli í næsta leik sem fer fram aðfaranótt föstudagsins.

Ray Allen var með 25 stig, Paul Pierce skoraði 21 stig og Kevin Garnett var með 18 stig í leiknum í nótt. Pierce var einnig með 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Cleveland hélt Rajon Rondo stigalausum í fyrri hálfleik en hann skoraði 16 stig í þeim seinni.

„Við megum ekki koma hingað aftur. Við verðum að líta á næsta leik eins og sjöunda leik. Við getum ekki leyft besta liðinu í deildarkeppninni að fá sjöunda leikinn á heimavelli. Það er bara ekki mögulegt," sagði Boston-maðurinn Kevin Garnett sem hefur verið frábær í einvíginu.

Shaquille O'Neal var stigahæstur hjá Cleveland með 21 stig og 4 varin skot. LeBron James skoraði aðeins 15 stig í nótt og hitti bara úr 3 af 14 skotum sínum.

„Ég klikkaði á mörgum opnum skotum sem ég set vanalega niður. Menn sjá mig ekki oft spila svona og þegar það gerist þá kemur það öllum mikið á óvart," sagði LeBron James daufur eftir leikinn. „Við erum upp við vegg. Við höfum unnið í Boston áður og verður nú bara að gera það aftur," sagði James.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×