Gagnrýni

Maður er konu úlfur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju.
Blóðhófnir eftir Gerði Kristnýju.

Bækur *****

Blóðhófnir

Gerður Kristný

Það var augljóst strax við útkomu Ísfréttar að Íslendingar höfðu eignast nýtt skáld, þótt Gerður Kristný væri þá ekki nema liðlega tvítug. Síðan hefur hún vaxið með hverri ljóðabók og eru þær nú orðnar fjórar.

Blóðhófnir er tvímælalaust hennar besta verk til þessa og er þá langt jafnað. Hið knappa ljóðform sem er aðalsmerki hennar hæfir efninu og hugsunin er meitluð og skýr. Þetta er söguljóð í fornum stíl, upphaf, ris og endir. Danskvæði nánast, takturinn dimmur og höggþungur, sparlega farið með orðin og dulúðug undiralda magnar áhrifin. Hér yrkir Gerður Kristný upp hin fornu Skírnismál, sem oft hafa verið túlkuð sem dæmisaga um upphaf yrkingar jarðarinnar og þá litið á Gerði Gymisdóttur, sem frjósemisguðinn Freyr lætur Skírni skósvein sinn kúga til samræðis við sig, sem táknmynd jarðarinnar.

Gerður Kristný lítur ekki á kúgun nöfnu sinnar sem jákvæðan atburð og lýsir angist og bræði Gerðar og draumum um hefnd í knöppu meitluðu formi sem eykur enn á ógnina:

Skelfingin

skorðaðist

í kviði mínum

þandist út

og þyngdist

Bjarg sem

breiddi úr sér

Og skelfingin er ekki ástæðulaus. Freyr er hér ekkert gæft góðmenni heldur vargur með úlfsaugu, sem nauðgar Gerði ítrekað, þótt hann raunar skammist sín á eftir og sjái eftir að hafa gefið Skírni hestinn Blóðhófni og sverð sitt að launum fyrir að brjóta mótstöðu konunnar á bak aftur og færa sér hana nauðuga. Valdbeitingin reynist enginn gleðigjafi og þegar upp er staðið ekki þess virði.

Hvort sem fólk kýs að lesa ljóðið sem lýsingu á samskiptum kynjanna, þar sem karlinn brýtur konuna undir vilja sinn í nafni ástar, eða lýsingu á samskiptum mannskepnunnar við jörðina þá eru áhrifin ógnvænleg og ljóst að kona/jörð sem hefur verið misþyrmt fyrirgefur ekki heldur leitar hefnda.

Ljóðið er allt lagt í munn Gerðar og henni fylgt í gegnum niðurbrot, valdbeitingu og aðskilnað frá heimalandi og ástvinum. Eina ljósið í angistarmyrkrinu sem umlykur hana er móðirin, en mynd hennar fylgir Gerði yfir í gósenland frjóseminnar og hjálpar henni að halda sönsum. Á karlpeninginn er lítt að treysta, elskhuginn vargur í véum og bræður og faðir fagna uppgjöf konunnar, því hún bjargar þeim frá bana. Og samskipti kynjanna flækjast enn þegar hún sjálf verður móðir drengs „með lófafylli af sól" sem fyllir líf hennar gleði á ný, en sem hugsanlega yrði tortímt ef til hefnda kæmi:

Ég bíð

endalokanna

Frændur munu

flykkjast yfir brúna

hefna horfinna kvenna

Ég vona að þeir

þekki son minn

og þyrmi honum

sem fékk ég þeim

hlíft forðum daga

Það er ekki nauðsynlegt að þekkja Skírnismál til hlítar til að njóta Blóðhófnis til fulls. Ljóðmál Gerðar Kristnýjar er kröftugt og hrífur lesandann með sér inn í þennan ógnarheim hvort sem hann þekkir söguna fyrir eða ekki. Enda stendur ljóðið fullvel fyrir sínu án skírskotananna til Skírnismála, byggir eigin heim og býður lesanda í ferðalag sem hann mun seint gleyma.

Niðurstaða: Besta ljóðabók Gerðar Kristnýjar. Meitlaður texti sem talar til lesandans á mörgum sviðum. Lestrarnautn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×