Körfubolti

Fjórði sigur Miami í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwyane Wade var góður í nótt.
Dwyane Wade var góður í nótt. Mynd/AP
Sex leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Miami vann sinn fjórða sigur í röð á tímabilinu er liðið vann Minnesota, 129-97.

Dwyane Wade skoraði 26 stig fyrir Miami og LeBron James var með 20 stig og tólf stoðsendingar. Sigur Miami var öruggur eins og tölurnar gefa til kynna en alls skoruðu varamenn liðsins 58 stig í leiknum.

Michael Beasley meiddist í öðrum leikhluta og mátti Minnesota ekki við því að missa hann. Hann var þá stigahæsti leikmaður liðsins með ellefu stig en sóknarleikur Minnesota versnaði eftir að hann fór af velli.

Kevin Love skoraði 20 stig fyrir Minnesota.

Miami hefur unnið þessa fjóra sigra með rúmlega 20 stiga mun að meðaltali eftir en liðið tapaði fyrir Boston í opnunarleik tímabilsins.

Washington vann Philadelphia, 116-115, í framlengdum leik. John Wall, sem var valinn fyrstur í nýliðavali deildarinnar í vor, fór á kostum í fyrsta leik sínum á heimavelli og var með 29 stig, þrettán stoðsendingar og níu stolna bolta.

Evan Turner, sem var valinn annar í nýliðavalinu, kom ekki við sögu hjá Philadelphia fyrr en í síðari hálfleik og skoraði alls níu stig, öll í fjórða leikhluta.

LA Lakers vann Memphis, 124-105. Kobe Bryant skoraði 23 stig, öll í fyrri hálfleik. Pau Gasol var með 21 stig og þrettán stig fyrir Lakers.

Atlanta vann Cleveland, 100-88. Marvin Williams var með 22 stig fyrir Atlanta og Al Horford sextán stig og tólf fráköst. Atlanta er eina ósigraða liðið í Austurdeildinni en liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína í haust.

Portland vann Milwaukee, 90-76. Wes Matthews skoraði átján stig fyrir Portland, þar af sextán í fyrri hálfleik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×