Körfubolti

Dirk Nowitzki ekki ákveðinn í að vera áfram hjá Dallas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Mynd/AP
Dirk Nowitzki er í sárum eftir enn ein vonbrigðin með Dallas Mavericks í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta. Dallas datt út úr fyrstu umferð í þriðja sinn á síðustu fjórum árum og hefur aldrei verið nálægt því að komast aftur í úrslitaeinvígið síðan að liðið tapaði 2-2 fyrir Miami Heat árið 2006.

„Ég ætla að halda öllu opnu eins og staðan er núna. Ég ætla að sjá hvað er í gangi og taka smá tíma til að komast yfir þessi vonbrigði," sagði Dirk Nowitzki sem getur sagt samningi sínum við Dallas lausum í sumar.

„Ég verð í sárum í einhverjar vikur en svo fer ég að hugsa um framtíðina," sagði Dirk sem fær 21,5 milljónir dollara fyrir næsta tímabil (2,7 milljarða íslenskra króna) ákveði hann að spila áfram með Dallas.

Dallas hefur unnið 50 leiki eða meira síðustu tíu tímabil en hefur aldrei náð því að vinna titilinn.

Nowitzki verður 32 ára gamall í júní og var að klára sitt tólfta tímabil. Hann skoraði 25 stig að meðaltali á þessu tímabili en hefur skorað 22,9 stig að meðaltali áferlinum.

„Ég er enn að spila minn besta bolta. Ég tel að ég eigi nokkur góð ár eftir ennþá," sagði Nowitzki sem hefur aldrei hitt betur úr þriggja stiga skotum (42,1 prósent) eða vítum (91,5 prósent) en hann gerði á þessu tímabili.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×