Minni hagsmunir ofar meiri Þorsteinn Pálsson skrifar 27. mars 2010 07:00 Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins, sem réttilega segir að ríkisstjórnin hafi ýtt þeim út úr stöðugleikasáttmálanum, hefur óveruleg bein áhrif. Samtökin hafa einfaldlega ekkert vopn í hendi til að ógna með. Yfirlýsingin varpar hins vegar ljósi á tvö pólitísk atriði sem vert er að gefa gaum. Annað er að ríkisstjórnin virðist ekki vita nægjanlega vel eftir hvaða striki hún siglir. Af því leiðir að hún hefur ekki styrk til að setja meiri hagsmuni ofar minni í eðlilegu málefnatogi innan eigin raða. Hitt er að vísbendingar gefa til kynna að byrjað sé að losna um þá samkennd sem myndaðist í launþegafélögunum eftir hrun. Þá er verðbólgudraugurinn laus. Vandi ríkisstjórnarinnar er í því fólginn að loforð hennar til SA og ASÍ um að setja sjávarútvegsmálin í sáttameðferð stangast á við stjórnarsáttmálann. Ríkisstjórnin hefur síðan ekki stuðning í eigin þingliði til að efna skuldbindinguna við vinnumarkaðinn. Hún reynir því að gera hvort tveggja í senn að breyta sjávarútvegsstefnunni einhliða og setja ágreininginn í sáttafarveg. Ekki þarf reynda menn í pólitík til að sjá að slíkt vinnulag gengur ekki upp. Margir þeirra sem andvígir eru vinstri stjórnum af hugmyndafræðilegum ástæðum þola þær á víðsjárverðum tímum eins og nú til að tryggja vinnufrið, þar á meðal ýmsir forystumenn í atvinnulífinu. Það horfir því illa ef stjórnin missir ofan á annað tök á þessu lykilatriði. Niðurstaðan er sú að forsætisráðherra fórnar meiri hagsmunum fyrir minni í samskiptum við atvinnulífið. Á örlagastundu efnahagsendurreisnar er það háskaleikur. Stærra samhengi Forsætisráðherra hefur lög að mæla þegar hann segir að LÍÚ ráði ekki samfélaginu. Það vald er að sjálfsögðu í höndum ríkisstjórnarmeirihlutans. Hitt er jafn ljóst að forsætisráðherra sem útilokar aðra frá áhrifum er ekki líklegur til að ná þjóðarsátt. Vel má vera að forsætisráðherra hugsi sem svo að áhættulaust sé að valta yfir útgerðarmenn því að þeir njóti sannarlega lítilla vinsælda í samfélaginu. Þeir hafa ekki náð að sannfæra fjöldann um gildi sjávarútvegsstefnunnar. Stjórnmálamenn sem hugsa meira um völd en markmið nota slíka stöðu. Það er ekki nýtt, en stundum óskynsamlegt Hin hliðin á stöðu útvegsmanna er sú að þeim hefur á örfáum mánuðum tekist að snúa almenningsálitinu við í Evrópumálum. Ef forsætisráðherra hugsaði um málefnastöðu sína í stærra samhengi ætti sú staðreynd að fá hann til að klóra sér í höfðinu og jafnvel til að hugsa sig um. Vert er að gefa því gaum að forsætisráðherra er fyrsti þjóðarleiðtogi umsóknarríkis sem ekki hefur lyft litla fingri til þess að ná sáttum þar um við þau samtök í atvinnulífinu sem eiga mestra hagsmuna að gæta. Slík samvinna verður ekki til með einhliða yfirlýsingum. Hún verður heldur ekki til án málamiðlana og næst ekki án þess að reyna. Ekki er alveg skýrt hversu mikið forsætisráðherra meinar með því sem hann segir um Evrópumál. Sé honum á hinn bóginn alvara ætti hann að vita að hann á lítið eitt undir sjávarútveginum í þeim efnum. Völd eru eitt, annað að valda hlutunum Samtök atvinnulífsins eiga að sönnu ekki krók á móti bragði ríkisstjórnarinnar. Spurningin er: Réttlætir það að ríkisstjórnin virði ekki samkomulag um málsmeðferð í jafn viðkvæmu máli og endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar er? Svarið fer eftir því hvert menn stefna. Forseti ASÍ hefur vegna biturrar reynslu íslensks launafólks lagt á það áherslu að verðmætasköpun verði að liggja til grundvallar kjarabótum. Hann hefur einnig með gildum rökum bent á að til framtíðar litið verði þær best tryggðar með samkeppnishæfri mynt. Um þetta er ríkisstjórnin hins vegar jafn ráðvillt og hann er skýr. Eins og mál þróast blasir því við að ASÍ kann að þurfa að friða sitt fólk með því að sækja launahækkanir án verðmætasköpunar á haustdögum. Það sem ýtir undir að svo fari er: Forystumenn þess geta ekki sagt umbjóðendum sínum að ríkisstjórnin stefni markvisst að því að unnt verði í náinni framtíð að semja um laun í samkeppnishæfri og þolanlega stöðugri mynt. Líkur hafa einfaldlega aukist á að verðbólguhækkun launa verði óumflýjanleg á úthallandi ári. Ekki er útilokað að völd forsætisráðherra verði þá léttvæg fundin. Fari víxlhækkanir launa og verðlags af stað er úti um endurreisnaráætlunina. Ríkisstjórnir sem hafa gott vald á málum og vita hvert þær eru að fara geta boðið hagsmunasamtökum birginn. Það er hins vegar áhættusamara fyrir ríkisstjórnir þegar efnahagsmálin eru í frjálsu falli og enginn veit hvert stefnir. Ríkisstjórnin þarf að gera upp við sig hvort hún ætlar að vera sáttastjórn eða átakastjórn. Eins og sakir standa er eins og hún vilji hvort tveggja en valdi hvorugu. Völd duga ekki alltaf til að valda hlutunum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Yfirlýsing Samtaka atvinnulífsins, sem réttilega segir að ríkisstjórnin hafi ýtt þeim út úr stöðugleikasáttmálanum, hefur óveruleg bein áhrif. Samtökin hafa einfaldlega ekkert vopn í hendi til að ógna með. Yfirlýsingin varpar hins vegar ljósi á tvö pólitísk atriði sem vert er að gefa gaum. Annað er að ríkisstjórnin virðist ekki vita nægjanlega vel eftir hvaða striki hún siglir. Af því leiðir að hún hefur ekki styrk til að setja meiri hagsmuni ofar minni í eðlilegu málefnatogi innan eigin raða. Hitt er að vísbendingar gefa til kynna að byrjað sé að losna um þá samkennd sem myndaðist í launþegafélögunum eftir hrun. Þá er verðbólgudraugurinn laus. Vandi ríkisstjórnarinnar er í því fólginn að loforð hennar til SA og ASÍ um að setja sjávarútvegsmálin í sáttameðferð stangast á við stjórnarsáttmálann. Ríkisstjórnin hefur síðan ekki stuðning í eigin þingliði til að efna skuldbindinguna við vinnumarkaðinn. Hún reynir því að gera hvort tveggja í senn að breyta sjávarútvegsstefnunni einhliða og setja ágreininginn í sáttafarveg. Ekki þarf reynda menn í pólitík til að sjá að slíkt vinnulag gengur ekki upp. Margir þeirra sem andvígir eru vinstri stjórnum af hugmyndafræðilegum ástæðum þola þær á víðsjárverðum tímum eins og nú til að tryggja vinnufrið, þar á meðal ýmsir forystumenn í atvinnulífinu. Það horfir því illa ef stjórnin missir ofan á annað tök á þessu lykilatriði. Niðurstaðan er sú að forsætisráðherra fórnar meiri hagsmunum fyrir minni í samskiptum við atvinnulífið. Á örlagastundu efnahagsendurreisnar er það háskaleikur. Stærra samhengi Forsætisráðherra hefur lög að mæla þegar hann segir að LÍÚ ráði ekki samfélaginu. Það vald er að sjálfsögðu í höndum ríkisstjórnarmeirihlutans. Hitt er jafn ljóst að forsætisráðherra sem útilokar aðra frá áhrifum er ekki líklegur til að ná þjóðarsátt. Vel má vera að forsætisráðherra hugsi sem svo að áhættulaust sé að valta yfir útgerðarmenn því að þeir njóti sannarlega lítilla vinsælda í samfélaginu. Þeir hafa ekki náð að sannfæra fjöldann um gildi sjávarútvegsstefnunnar. Stjórnmálamenn sem hugsa meira um völd en markmið nota slíka stöðu. Það er ekki nýtt, en stundum óskynsamlegt Hin hliðin á stöðu útvegsmanna er sú að þeim hefur á örfáum mánuðum tekist að snúa almenningsálitinu við í Evrópumálum. Ef forsætisráðherra hugsaði um málefnastöðu sína í stærra samhengi ætti sú staðreynd að fá hann til að klóra sér í höfðinu og jafnvel til að hugsa sig um. Vert er að gefa því gaum að forsætisráðherra er fyrsti þjóðarleiðtogi umsóknarríkis sem ekki hefur lyft litla fingri til þess að ná sáttum þar um við þau samtök í atvinnulífinu sem eiga mestra hagsmuna að gæta. Slík samvinna verður ekki til með einhliða yfirlýsingum. Hún verður heldur ekki til án málamiðlana og næst ekki án þess að reyna. Ekki er alveg skýrt hversu mikið forsætisráðherra meinar með því sem hann segir um Evrópumál. Sé honum á hinn bóginn alvara ætti hann að vita að hann á lítið eitt undir sjávarútveginum í þeim efnum. Völd eru eitt, annað að valda hlutunum Samtök atvinnulífsins eiga að sönnu ekki krók á móti bragði ríkisstjórnarinnar. Spurningin er: Réttlætir það að ríkisstjórnin virði ekki samkomulag um málsmeðferð í jafn viðkvæmu máli og endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar er? Svarið fer eftir því hvert menn stefna. Forseti ASÍ hefur vegna biturrar reynslu íslensks launafólks lagt á það áherslu að verðmætasköpun verði að liggja til grundvallar kjarabótum. Hann hefur einnig með gildum rökum bent á að til framtíðar litið verði þær best tryggðar með samkeppnishæfri mynt. Um þetta er ríkisstjórnin hins vegar jafn ráðvillt og hann er skýr. Eins og mál þróast blasir því við að ASÍ kann að þurfa að friða sitt fólk með því að sækja launahækkanir án verðmætasköpunar á haustdögum. Það sem ýtir undir að svo fari er: Forystumenn þess geta ekki sagt umbjóðendum sínum að ríkisstjórnin stefni markvisst að því að unnt verði í náinni framtíð að semja um laun í samkeppnishæfri og þolanlega stöðugri mynt. Líkur hafa einfaldlega aukist á að verðbólguhækkun launa verði óumflýjanleg á úthallandi ári. Ekki er útilokað að völd forsætisráðherra verði þá léttvæg fundin. Fari víxlhækkanir launa og verðlags af stað er úti um endurreisnaráætlunina. Ríkisstjórnir sem hafa gott vald á málum og vita hvert þær eru að fara geta boðið hagsmunasamtökum birginn. Það er hins vegar áhættusamara fyrir ríkisstjórnir þegar efnahagsmálin eru í frjálsu falli og enginn veit hvert stefnir. Ríkisstjórnin þarf að gera upp við sig hvort hún ætlar að vera sáttastjórn eða átakastjórn. Eins og sakir standa er eins og hún vilji hvort tveggja en valdi hvorugu. Völd duga ekki alltaf til að valda hlutunum.
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun