Körfubolti

NBA: Kobe einni stoðsendingu frá þrennunni en Lakers tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP

Hedo Turkoglu tryggði Toronto Raptors 106-105 sigur á Los Angeles Lakers með því að hitta úr tveimur vítaskotum 1,2 sekúndum fyrir leikslok. Kobe Bryant átti síðasta skot leiksins en hitti ekki og Lakers-liðið tapaði í annað skiptið í þremur leikjum.

Kobe Bryant var aðeins einni stoðsendingu frá því að ná sinni fyrstu þrennu á tímabilinu en hann var með 27 stig, 16 fráköst og 9 stoðsendingar í leiknum. Þetta hefði orðið sautjánda þrennan hans á ferlinum.

Andrea Bargnani skoraði 22 stig fyrir Toronto og þeir Chris Bosh og Jarrett Jack voru báðir með 18 stig. Pau Gasol skoraði 22 stig fyrir Lakers og Andrew Bynum var með 21 stig.

Dallas Mavericks vann sinn stærsta sigur í sögunni þegar liðið lagði New York Knicks að velli með 50 stiga mun, 128-78. Dallas hitti úr 58 prósent skota sinna, setti niður 12 af 22 þriggja stiga skotum sínum og náði mest 53 stiga forustu.

Drew Gooden var með 15 stig og 18 fráköst og þeir Dirk Nowitzki og Jason Terry voru báðir með 20 stig. David Lee var með 11 stig og 14 fráköst í sjötta tapi Knicks í síðustu átta leikjum.

Chris Kaman var með 20 stig og Marcus Camby var með 12 stig og 19 fráköst þegar Los Angeles Clippers vann 92-78 sigur á Washington Wizards en þetta var fyrsti útisigur liðsins í níu leikjum. Antawn Jamison var með 20 stig og 10 fráköst í þriðja tapi Washington í röð.

 



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×