Körfubolti

LA Lakers og Orlando Magic með sópinn á lofti

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Carlos Boozer, ekki par sáttur.
Carlos Boozer, ekki par sáttur. AP
Bæði Los Angeles Lakers og Orlando Magic komust í nótt í úrslit sinna deilda í NBA-körfuboltanum eftir að hafa sópað andstæðingum sínum úr keppni.

Bæði lið unnu rimmurnar 4-0.

Lakers lagði Utah 111-96. Lakers náði 22 stiga forystu í fyrri hálfleik og þrátt fyrir áhlaup Jazz í þriðja leikhluta var sigurinn öruggur. Þetta er í fyrsta sinn sem Utah er sópað úr úrslitakeppni.

"Þegar leikir eru jafnir er hættan sú að menn missi einbeitinguna. En við héldum henni og lögðum áherslu á smáatriðin," sagði Kobe Bryant en hann skoraði 32 stig fyrir Lakers. Deron Williams skoraði 21 stig hjá Utah og gaf 9 stoðsendingar.

Pau Gasol var með 33 og 14 fráköst en Lakers fær nú frí þar til það mætir Phoenix Suns í fyrsta úrslitaleik Vesturdeildarinnar næsta mánudag. Það verður svakaleg rimma, en Phoenix sópaði San Antonio Spurs einmitt í fjórum leikjum.

Atlanta Hawks sá aldrei til sólar gegn Orlando og tapaði í nótt 98-84. Orlando vann leikina með að meðaltali 25,3 stigum og hefur nú unnið alla átta leikina sína í úrslitakeppninni, síðustu 14 leiki alls og 28 af síðustu 31 leik.

"Strákarnir eru einbeittir. Það er ótrúlegt að sjá þetta," sagði Vince Carter sem sallaði 22 stigum og var magnaður í nótt.

Orlando tapaði fyrir Lakers í úrslitum um NBA-titilinn á síðasta tímabili. Margir veðja á að sömu lið spili til úrslita en Orlando á þó eftir að mæta annaðhvort Cleveland, með Lebron James innan sinna raða, eða Boston Celtics, í úrslitum Austurdeildarinnar.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×