Körfubolti

Gasol og Kobe fóru á kostum í sigri Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant og Pau Gasol í leiknum í nótt.
Kobe Bryant og Pau Gasol í leiknum í nótt. Mynd/AP

LA Lakers er komið í 2-0 gegn Phoenix í úrslitaeinvígi Vesturstrandarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Lakers vann í nótt, 124-112, og hefur nú skorað að meðaltali 126 stig í fyrstu tveimur leikjum rimmunnar sem báðir hafa farið fram á heimavelli Lakers. Næstu tveir fara svo fram í Phoenix.

„Ég hef ekki hugmynd," sagði Grant Hill spurður hvernig lið Phoenix ætlaði að nota tímann fram að næsta leik en liðin fá nú fjögurra daga frí. „Það er kannski gott að fá smá frí. Kannski þurfum við að hugsa þetta upp á nýtt en við fengum nú þessa tvo leiki til að sjá hvað þeir eru að gera."

Phil Jackson hefur enn ekki tapað rimmu í úrslitakeppni eftir að lið hans vann fyrsta leikinn í alls 46 tilraunum og Lakers hefur aðeins einu sinni tapað í sögunni eftir að hafa komist 2-0 yfir.

„Við verðum bara að verjast betur," sagði Steve Nash, leikstjórnandi Phoenix.

Pau Gasol og Kobe Bryant fóru á kostum í leiknum í nótt. Gasol var með 29 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar en Bryant með 21 stig og þrettán stoðsendingar. Ron Artest náði sér einnig vel á strik og skoraði átján stig. Lamar Odom var með sautján.

Jason Richardson skoraði 27 stig, Hill var með 23 og Amare Stoudemire átján.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×