Körfubolti

Aðstoðarþjálfari Boston búinn að semja við Chicago í miðjum úrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Thibodeau og Doc Rivers.
Tom Thibodeau og Doc Rivers. Mynd/AP

Tom Thibodeau, aðstoðarþjálfari Doc Rivers hjá Boston Celtics, og hugmyndasmiðurinn á bak við hinn magnaða varnarleik liðsins verður næsti þjálfari Chicago Bulls samkvæmt fréttum vestra. Bulls mun ráða hann til tveggja ára og hann fær 6,5 milljónir dollara fyrir.

NBA-deildin gerir enga athugasemd við það að félög ráði sér nýjan þjálfara þótt að lokaúrslitin standi yfir en talsmaður deildarinnar segir að ákveðið hafi verið að tilkynna ekki formlega um ráðningu Tom Thibodeau fyrr en eftir lokaúrslitin.

Doc Rivers var ánægður að heyra þessar fréttir þrátt fyrir að þær komi í miðjum lokaúrslitum liðsins á móti Los Angeles Lakers en leikur tvö er í Los Angeles í nótt.

„Ég vona að þetta sé satt en ég ætla samt ekkert að tjá mig um þetta. Við ætlum að einbeita okkur að úrslitunum, þar spila tvö lið, Lakers og Celtics. Við einbeitum okkur bara að þeim liðum núna," sagði Doc Rivers.

Rivers stóðst þó ekki freistinguna að hrósa aðstoðarmanni sínum. „Tom á þetta skilið. Hann er besti kosturinn í boði og ég hef sagt það undanfarin þrjú ár," sagði Doc Rivers en Thibodeau hefur hjálpað honum að koma Celtics tvisvar sinnum í lokaúrslitin á undanförnum þremur árum.

Thibodeau er búinn að vera aðstoðarmaður í NBA-deildinni í 18 ár og hefur á þeim tíma starfað fyrir sjö mismunandi félög. Hann kom einnig til greina sem næsti þjálfari New Orleans og New Jersey.

Annar leikur Los Angeles Lakers og Boston Celtics fer fram í nótt og hefst á miðnætti að íslenskum tíma. Lakers vann fyrsta leikinn frekar örugglega en fyrstu tveir leikirnir fara fram í Los Angeles en síðan taka við þrír leikir í Boston.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×