Vinstri vængurinn styrkist Þorsteinn Pálsson skrifar 4. september 2010 00:01 Fyrr í sumar var því haldið fram á þessum vettvangi að ódýrara yrði fyrir þjóðina að fá Ögmund Jónasson í ríkisstjórn heldur en að láta lausbeislaðan vinstri væng VG þvinga fram þjóðnýtingu HS-orku. Nú er spurning hvort kenningin stenst. Svo virðist vera að forsætisráðherrann hafi ekki notað uppstokkunina á ríkisstjórninni til að styrkja málefnastöðuna sem vinstri vængur VG hefur smám saman verið að brjóta niður. Þvert á móti hefur vinstri vængurinn styrkt málefnastöðu sína. Samfylkingin hefur veikst að sama skapi. Með öðrum orðum: Vinstri vængurinn sýnist hafa fengið stóraukin áhrif um leið og hann heldur að mestu óbreyttri þeirri málefnalegu klemmu sem gert hefur ríkisstjórnina óstarfhæfa. Fyrirfram var erfitt að sjá að forsætisráðherra myndi leika þannig af sér frá málefnalegum sjónarhóli. Frá sjónarhóli valdanna getur tvennt leitt til þess að stjórnin styrkist í kjölfar þessara breytinga: Annað er að vinstri vængur VG mun draga úr opinberum atlögum að formanni flokksins. Staða hans batnar að því leyti þó að málefnaleg forysta hans veikist. Ríkisstjórnin í heild mun hafa hag af minni óróleika á yfirborðinu. Hitt er að með komu Ögmundar Jónassonar verða fjórir af tíu ráðherrum með raunverulegt áhrifavald ráðherra í stað þriggja af tólf. Þetta gefur stjórninni sterkara yfirbragð. Breytingin lengir líf stjórnarinnar. Þeir sem gert hafa sér vonir um stjórnarmyndun á grundvelli Heimssýnarbandalagsins sjá nú á eftir þeim möguleika. Þá ræður persónuleg afstaða miklu um að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn geta ekki unnið saman. Málefnalega hefur þó sjaldan verið betra lag til að reka fleyg í stjórnarsamstarfið frá miðju stjórnmálanna. Samfylkingin veikist Ögmundur Jónasson hafði forystu um að vinstri vængurinn gerði bandalag við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Hreyfinguna gegn samningi ríkisstjórnarinnar um Icesave. Ætla verður að hann hafi keypt ráðherradóminn með loforði um að rjúfa þetta bandalag. Það merkir að ríkisstjórnin þarf að ljúka málinu með eigin þingstyrk og án aðstoðar stjórnarandstöðunnar. Ekkert mál hefur veikt stjórnina meir en þetta. Samt vék forsætisráðherra ekki einu orði að stöðu þess í tengslum við breytingarnar. Það er veikleikamerki. Ef þetta er hins vegar ekki með í kaupunum eins og Ögmundur Jónasson lét í veðri vaka er breytingin út í hött fyrir formennina. Stjórnarflokkarnir sammæltust í byrjun um að hrinda í framkvæmd þeim áformum í stjóriðjumálum sem sátt var um í fyrri ríkisstjórn og endurreisnaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir. Samfylkingin hefur mátt þola að VG stöðvaði framgang þessara mála. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að vinstri vængur VG hefur fengið því framgengt að samið verður upp á nýtt um þessi markmið. Þetta sýnir verulega aukinn styrk vinstri vængsins í samstarfinu og veikari málefnastöðu Samfylkingarinnar. Þá gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu um að frekari ráðstafanir yrðu ekki gerðar til að jafna ríkissjóðshallann 2012. Þetta er til marks um aukin áhrif vinstri vængsins og forystuleysi Samfylkingarinnar um hvað á að taka við þegar AGS fer að ári. Ríkari einangrunarhyggja Á fyrstu klukkustundum í embætti á nýju verksviði innanríkisráðherra kom Ögmundur Jónasson með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO. Í þessu felast þau skilaboð að vinstri vængurinn ætlar að auka áhrif sín á sviði utanríkismála. Utanríkisráðherrann á að skilja að enginn er annars bróðir í leik. Það sýnir veikleika Samfylkingarinnar að ekki er minnst á Evrópusambandsumsóknina í nýju stefnuyfirlýsingunni. Viðmælendurnir vita til hvers refirnir eru skornir. Samningsstaða Íslands veikist í samræmi við það. Eftir breytinguna er þó ólíklegra að tillaga um að afturkalla umsóknina verði samþykkt, jafnvel þó að henni verði breytt í ályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt er að vinstri vængurinn hefur búið til það álit að ákvörðun Alþingis hafi alls ekki falið í sér heimild til að sækja um aðild heldur aðeins að kanna möguleika á tilboðum frá Evrópusambandinu. Hann hefur náð þeim tökum á flokknum að gamla forystan virðist taka undir þessa skilgreiningu. Þetta þýðir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður ekki einn um að vinna á vettvangi stjórnsýslunnar gegn því að umsóknarferlið gangi eðlilega fram. Möguleikarnir á því að þetta mikilvæga mál verði leitt til lykta á starfstíma þessarar stjórnar hafa því dvínað. Reynist það rétt mat eru ráðherrabreytingarnar niðurlæging fyrir Samfylkinguna. Þó að þjóðin græði það á umskiptunum að fjármunir fara ekki frá velferðarþjónustunni til að þjóðnýta HS Orku munu þau ekki bæta stöðu þjóðarbúsins. Aukheldur stuðla þau að frekari einangrun Íslands. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Fyrr í sumar var því haldið fram á þessum vettvangi að ódýrara yrði fyrir þjóðina að fá Ögmund Jónasson í ríkisstjórn heldur en að láta lausbeislaðan vinstri væng VG þvinga fram þjóðnýtingu HS-orku. Nú er spurning hvort kenningin stenst. Svo virðist vera að forsætisráðherrann hafi ekki notað uppstokkunina á ríkisstjórninni til að styrkja málefnastöðuna sem vinstri vængur VG hefur smám saman verið að brjóta niður. Þvert á móti hefur vinstri vængurinn styrkt málefnastöðu sína. Samfylkingin hefur veikst að sama skapi. Með öðrum orðum: Vinstri vængurinn sýnist hafa fengið stóraukin áhrif um leið og hann heldur að mestu óbreyttri þeirri málefnalegu klemmu sem gert hefur ríkisstjórnina óstarfhæfa. Fyrirfram var erfitt að sjá að forsætisráðherra myndi leika þannig af sér frá málefnalegum sjónarhóli. Frá sjónarhóli valdanna getur tvennt leitt til þess að stjórnin styrkist í kjölfar þessara breytinga: Annað er að vinstri vængur VG mun draga úr opinberum atlögum að formanni flokksins. Staða hans batnar að því leyti þó að málefnaleg forysta hans veikist. Ríkisstjórnin í heild mun hafa hag af minni óróleika á yfirborðinu. Hitt er að með komu Ögmundar Jónassonar verða fjórir af tíu ráðherrum með raunverulegt áhrifavald ráðherra í stað þriggja af tólf. Þetta gefur stjórninni sterkara yfirbragð. Breytingin lengir líf stjórnarinnar. Þeir sem gert hafa sér vonir um stjórnarmyndun á grundvelli Heimssýnarbandalagsins sjá nú á eftir þeim möguleika. Þá ræður persónuleg afstaða miklu um að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn geta ekki unnið saman. Málefnalega hefur þó sjaldan verið betra lag til að reka fleyg í stjórnarsamstarfið frá miðju stjórnmálanna. Samfylkingin veikist Ögmundur Jónasson hafði forystu um að vinstri vængurinn gerði bandalag við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Hreyfinguna gegn samningi ríkisstjórnarinnar um Icesave. Ætla verður að hann hafi keypt ráðherradóminn með loforði um að rjúfa þetta bandalag. Það merkir að ríkisstjórnin þarf að ljúka málinu með eigin þingstyrk og án aðstoðar stjórnarandstöðunnar. Ekkert mál hefur veikt stjórnina meir en þetta. Samt vék forsætisráðherra ekki einu orði að stöðu þess í tengslum við breytingarnar. Það er veikleikamerki. Ef þetta er hins vegar ekki með í kaupunum eins og Ögmundur Jónasson lét í veðri vaka er breytingin út í hött fyrir formennina. Stjórnarflokkarnir sammæltust í byrjun um að hrinda í framkvæmd þeim áformum í stjóriðjumálum sem sátt var um í fyrri ríkisstjórn og endurreisnaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir. Samfylkingin hefur mátt þola að VG stöðvaði framgang þessara mála. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að vinstri vængur VG hefur fengið því framgengt að samið verður upp á nýtt um þessi markmið. Þetta sýnir verulega aukinn styrk vinstri vængsins í samstarfinu og veikari málefnastöðu Samfylkingarinnar. Þá gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu um að frekari ráðstafanir yrðu ekki gerðar til að jafna ríkissjóðshallann 2012. Þetta er til marks um aukin áhrif vinstri vængsins og forystuleysi Samfylkingarinnar um hvað á að taka við þegar AGS fer að ári. Ríkari einangrunarhyggja Á fyrstu klukkustundum í embætti á nýju verksviði innanríkisráðherra kom Ögmundur Jónasson með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO. Í þessu felast þau skilaboð að vinstri vængurinn ætlar að auka áhrif sín á sviði utanríkismála. Utanríkisráðherrann á að skilja að enginn er annars bróðir í leik. Það sýnir veikleika Samfylkingarinnar að ekki er minnst á Evrópusambandsumsóknina í nýju stefnuyfirlýsingunni. Viðmælendurnir vita til hvers refirnir eru skornir. Samningsstaða Íslands veikist í samræmi við það. Eftir breytinguna er þó ólíklegra að tillaga um að afturkalla umsóknina verði samþykkt, jafnvel þó að henni verði breytt í ályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hitt er að vinstri vængurinn hefur búið til það álit að ákvörðun Alþingis hafi alls ekki falið í sér heimild til að sækja um aðild heldur aðeins að kanna möguleika á tilboðum frá Evrópusambandinu. Hann hefur náð þeim tökum á flokknum að gamla forystan virðist taka undir þessa skilgreiningu. Þetta þýðir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður ekki einn um að vinna á vettvangi stjórnsýslunnar gegn því að umsóknarferlið gangi eðlilega fram. Möguleikarnir á því að þetta mikilvæga mál verði leitt til lykta á starfstíma þessarar stjórnar hafa því dvínað. Reynist það rétt mat eru ráðherrabreytingarnar niðurlæging fyrir Samfylkinguna. Þó að þjóðin græði það á umskiptunum að fjármunir fara ekki frá velferðarþjónustunni til að þjóðnýta HS Orku munu þau ekki bæta stöðu þjóðarbúsins. Aukheldur stuðla þau að frekari einangrun Íslands.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun