Vandræðabarnið í Vatnsmýrinni Steinunn Stefánsdóttir skrifar 20. júlí 2010 06:00 Það er ekki oft sem ástæða er til að fagna seinagangi og ráðaleysi yfirvalda. Svo er þó þegar kemur að blessaðri samgöngumiðstöðinni sem lengi hefur staðið til að rísi í Vatnsmýrinni þrátt fyrir að í nánustu framtíð sé fyrirsjáanleg kúvending á hlutverki Vatnsmýrarsvæðisins í samgöngumálum. Hik borgarinnar nú stafar enda vonandi af því að taka á málið úr ráðaleysisfarvegi og setja í rökréttan farveg. Í vetur var því lýst yfir að framkvæmdir ættu að hefjast við byggingu samgöngumiðstöðvarinnar í sumar en fyrir lá vilyrði lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins með lánum. Samgöngumiðstöðinni er ætlað að vera miðstöð innanlandsflugs og hópferðabíla. Sá hængur er hins vegar á að samkvæmt aðalskipulagi á flugvöllurinn að hverfa úr Vatnsmýri á árunum 2016 til 2024. Ef fylgja á því skipulagi er hreinasta fásinna að byggja sérstaklega yfir starfsemi tengda innanlandsflugi í Vatnsmýrinni nú þegar aðeins fjórtán ár eru þangað til flugvöllurinn á að vera horfinn úr Mýrinni. Deilan um flugvöllinn í Vatnsmýri hefur staðið lengi. Í kjölfar atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa var ákveðið að önnur brautin hyrfi af skipulagi 2016 og hin 2024. Eftir þann tíma er ekki gert ráð fyrir flugvelli í Vatnsmýri. Efnt var til metnaðarfullrar og kostnaðarsamrar samkeppni um það hvernig nýta mætti þetta dýrmæta svæði í hjarta borgarinnar. Út úr henni komu margar áhugaverðar hugmyndir að nýtingarmöguleikum þessa mikla landrýmis í næsta nágrenni miðborgar Reykjavíkur. Svo virðist þó sem þau öfl sem fylgjandi eru áframhaldandi rekstri flugvallar í Vatnsmýri séu svo sterk að þau ætli sér einfaldlega að virða að vettugi gildandi aðalskipulag, láta hreinlega eins og það sé ekki til. Áformin um að halda til streitu byggingu samgöngumiðstöðvar sem að hluta er ætlað að hýsa flugvallarstarfsemi er til vitnis um það. Vera kann að það verði niðurstaðan að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri einhverja áratugi í viðbót. Til þess að svo megi verða þarf að gera breytingu á gildandi skipulagi. Ákvarðanirnar verður að taka í rökréttri röð. Að byggja samgöngumiðstöð utan um flugvallarstarfsemi á stað þar sem ekki er gert ráð fyrir flugvelli á skipulagi nema fáein ár í viðbót er ábyrgðarlaus meðferð á fjármunum. Næg eru verkefnin ef vilji er til að verja fé til að byggja upp samgöngumannvirki í landinu og skapa með því störf, en gert hefur verið ráð fyrir að með byggingu samgöngumiðstöðvarinnar gætu orðið til milli 80 og 90 störf í eitt ár. Á áætlun eru fjölmörg verkefni sem ekki fara í bága við skipulag komandi ára, til dæmis brýnar samgöngubætur sem lúta að öryggi vegfarenda á fjölförnum leiðum hringinn í kringum landið. Vonandi stafar hik Reykjavíkurborgar í samgöngumiðstöðvarmálinu af því að ný borgaryfirvöld ætla sér að sporna við því að byggð verði samgöngumiðstöð á skjön við gildandi skipulag borgarinnar. Hlutina verður að taka í réttri röð; skipuleggja fyrst og framkvæma svo. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Það er ekki oft sem ástæða er til að fagna seinagangi og ráðaleysi yfirvalda. Svo er þó þegar kemur að blessaðri samgöngumiðstöðinni sem lengi hefur staðið til að rísi í Vatnsmýrinni þrátt fyrir að í nánustu framtíð sé fyrirsjáanleg kúvending á hlutverki Vatnsmýrarsvæðisins í samgöngumálum. Hik borgarinnar nú stafar enda vonandi af því að taka á málið úr ráðaleysisfarvegi og setja í rökréttan farveg. Í vetur var því lýst yfir að framkvæmdir ættu að hefjast við byggingu samgöngumiðstöðvarinnar í sumar en fyrir lá vilyrði lífeyrissjóða um fjármögnun verkefnisins með lánum. Samgöngumiðstöðinni er ætlað að vera miðstöð innanlandsflugs og hópferðabíla. Sá hængur er hins vegar á að samkvæmt aðalskipulagi á flugvöllurinn að hverfa úr Vatnsmýri á árunum 2016 til 2024. Ef fylgja á því skipulagi er hreinasta fásinna að byggja sérstaklega yfir starfsemi tengda innanlandsflugi í Vatnsmýrinni nú þegar aðeins fjórtán ár eru þangað til flugvöllurinn á að vera horfinn úr Mýrinni. Deilan um flugvöllinn í Vatnsmýri hefur staðið lengi. Í kjölfar atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa var ákveðið að önnur brautin hyrfi af skipulagi 2016 og hin 2024. Eftir þann tíma er ekki gert ráð fyrir flugvelli í Vatnsmýri. Efnt var til metnaðarfullrar og kostnaðarsamrar samkeppni um það hvernig nýta mætti þetta dýrmæta svæði í hjarta borgarinnar. Út úr henni komu margar áhugaverðar hugmyndir að nýtingarmöguleikum þessa mikla landrýmis í næsta nágrenni miðborgar Reykjavíkur. Svo virðist þó sem þau öfl sem fylgjandi eru áframhaldandi rekstri flugvallar í Vatnsmýri séu svo sterk að þau ætli sér einfaldlega að virða að vettugi gildandi aðalskipulag, láta hreinlega eins og það sé ekki til. Áformin um að halda til streitu byggingu samgöngumiðstöðvar sem að hluta er ætlað að hýsa flugvallarstarfsemi er til vitnis um það. Vera kann að það verði niðurstaðan að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri einhverja áratugi í viðbót. Til þess að svo megi verða þarf að gera breytingu á gildandi skipulagi. Ákvarðanirnar verður að taka í rökréttri röð. Að byggja samgöngumiðstöð utan um flugvallarstarfsemi á stað þar sem ekki er gert ráð fyrir flugvelli á skipulagi nema fáein ár í viðbót er ábyrgðarlaus meðferð á fjármunum. Næg eru verkefnin ef vilji er til að verja fé til að byggja upp samgöngumannvirki í landinu og skapa með því störf, en gert hefur verið ráð fyrir að með byggingu samgöngumiðstöðvarinnar gætu orðið til milli 80 og 90 störf í eitt ár. Á áætlun eru fjölmörg verkefni sem ekki fara í bága við skipulag komandi ára, til dæmis brýnar samgöngubætur sem lúta að öryggi vegfarenda á fjölförnum leiðum hringinn í kringum landið. Vonandi stafar hik Reykjavíkurborgar í samgöngumiðstöðvarmálinu af því að ný borgaryfirvöld ætla sér að sporna við því að byggð verði samgöngumiðstöð á skjön við gildandi skipulag borgarinnar. Hlutina verður að taka í réttri röð; skipuleggja fyrst og framkvæma svo.