Körfubolti

Camby allt annað en sáttur með að vera skipt til Portland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Camby.
Marcus Camby. Mynd/AFP
NBA-liðin Los Angeles Clippers og Portland Trail Blazers hafa komið sér saman um að skipta á leikmönnum. Marcus Camby fer Portland í staðinn fyrir framherjann Travis Outlaw og bakvörðinn Steve Blake.

Marcus Camby frétti af skiptunum þegar umboðsmaður hans hringdi í hann þegar Camby var út að borða með öllu Los Angeles Clippers liðinu. Camby stóð umsvifalaust upp úr sæti sínu og strunsaði út.

„Honum líkaði vel við Clippers-liðið og félagið. Hann er hrifinn af LA og konan hans var ánægð í Los Angeles. Hann er svo sannarlega ekki ánægður með þetta," sagði heimildarmaður Marc J. Spears í frétt hans á Yahoo.com.

Travis Outlaw er 25 ára gamall en hann fótbrotnaði það illa í vetur að það er óttast um framtíð hans í boltanum. Blake er 29 ára gamall og var með 7,6 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali með Portland.

„Allir strákarnir í liðinu eru ósáttir af því að besta varnarmanni liðsins var skipt fyrir varaleikstjórnanda og pening," hefur Spears eftir einum leikmanni Clippers liðsins.

Marcus Camby er 35 ára gamall en hann er með 7,7 stig og 12,1 frákast að meðaltali með Los Angeles Clippers í vetur. Hann er á sínu síðasta ári í samningi sínum.

Þetta er í fjórða sinn sem hann fer í skiptum milli liða. Hann fór frá Toronto Raptors til New York Knicks 1998, frá New York Knicks til Denver Nuggets 2002 og svo frá Denver Nuggets til Clippers 2008.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×