Íslenski boltinn

Ásgrímur Helgi: Þetta er bara slys

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Ásgrímur Helgi Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Ásgrímur Helgi Einarsson, þjálfari Aftureldingar. Mynd/Daníel
„Nákvæmlega ekki neitt hægt að segja eftir svona leik. Við vorum hreinlega bara ekki með hér í kvöld," sagði Ásgrímur Helgi Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir að hans lið steinlá 10-0 fyrir Val í sjöundu umferð Pepsi-deildar kvenna.

„Við ætluðum að mæta brjálaðar til leiks og gera ákveðna hluti. Við hinsvegar mættum ekki, vorum ekki brjálaðar og gerðum ekki þá hluti sem við töluðum um. Ef að þú mætir svona á móti Val þá fer þetta svona," bætti Ásgrímur við.

Ásgrímur segir að nú verði liðið að setjast niður og ræða leikinn en svo verður haldið áfram. Hann er með ungt og efnilegt lið í höndunum og segir álagið mikið á mörgum af ungu stúlkunum.

„Við verðum bara að setjast niður og hreinsa þetta út úr hausnum, þetta er bara slys. Þær eru fullar af áhuga og vilja allar og það var kannski vandamálið í dag, hversu mikinn vilja þær sýndu en þær eru margar að spila með 2.flokki líka svo það er mikið álag."

„Framtíðin er klárlega hjá þessum stelpum og við eigum einn besta annan flokk á landinu og þær eiga bara eftir að verða betri með tímanum þegar að þær fá meiri reynslu, svo það er engin spurning að þær eiga framtíðina fyrir sér," sagði Ásgrímur í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×