Lífið

Jógvan miður sín yfir ummælum Jenis

Söngvarinn góðkunni segir ummæli þingmannsins Jenis av Rana bæði sorgleg og leiðinleg. fréttablaðið/gva
Söngvarinn góðkunni segir ummæli þingmannsins Jenis av Rana bæði sorgleg og leiðinleg. fréttablaðið/gva

„Þetta er bara til skammar. Ég veit að hann talar ekki fyrir hönd Færeyinga,“ segir söngvarinn Jógvan Hansen um ummæli landa síns, þingmannsins Jenis av Rana.



Hann sagðist í gær ekki ætla að sitja til borðs með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, vegna þess að þær eru samkynhneigðar. Ummælin vöktu hörð viðbrögð, bæði hjá öðrum færeyskum stjórnmálamönnum og Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra.

Jógvan segir að ummæli Jenis séu út í hött. „Ef þetta er skoðun hans á hann bara að halda henni fyrir sjálfan sig. Þetta eru bara fordómar,“ segir hann.



„Hann er ekki að standa sig sem fulltrúi þjóðar sinnar með því að tala svona. Færeyingar eru langt í frá fordómafullir, sem maður myndi samt ímynda sér þegar hann talar svona. Maður veit varla hvað maður á að segja,“ bætir söngvarinn við, greinilega mikið niðri fyrir. „Þetta er bara vandræðalegt og manni líður illa yfir þessu. Þetta er virkilega sorglegt og leiðinlegt.“

Spurður nánar út í Jenis av Rana segist Jógvan kannast við hann. „Þetta er öfgamaður. Hann hefur alltaf verið svona.“



Jógvan hafði í nógu að snúast í gær í tengslum við þetta hitamál því færeyska útvarpið fékk hann einnig í viðtal. Þar reyndi hann að fullvissa landa sína um að Íslendingar væru langt frá því að vera farnir að hata þá vegna ummælanna og að þjóðirnar tvær væru enn þá góðir vinir. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.