Fótbolti

Barcelona reynir að landa Villa og Fabregas

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Villa og Fabregas í leik með spænska landsliðinu.
Villa og Fabregas í leik með spænska landsliðinu.

Varaforseti Barcelona, Rafael Yuste, segir að félagið sé langt komið með að semja við framherjann David Villa og félagið er einnig bjartsýnt á að geta keypt Cesc Fabregas frá Arsenal.

Kaupin á Villa hafa legið í loftinu í nokkurn tíma enda er félag hans, Valencia, í miklum fjárhagsvandræðum.

Einnig hefur verið vitað um áhuga félagsins á Fabregas en hann hefur sjálfur sagt að hann vilji fara aftur á einhverjum tímapunkti til félagsins sem ól hann upp.

„Það gengur vel með Villa en málið með Fabregas er erfiðara. Það sem mestu skiptir er að leikmennirnir vilja koma til okkar. Nú verðum við að tala við Arsenal og reyna að ná samkomulagi," sagði Yuste.

Líklegt er talið að Barcelona muni bjóða Arsenal miðjumanninn Yaya Toure sem hluta af kaupverðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×