Hvernig fáum við hæfasta fólkið? Ólafur Stephensen skrifar 12. október 2010 06:00 Nú er tæp vika þar til framboðsfrestur til boðaðs stjórnlagaþings rennur út. Ýmsir mætir einstaklingar hafa greint opinberlega frá framboði sínu en ennþá vantar heilmikið upp á þann fjölda sem á að sitja á þinginu. Sjálfsagt munu margir gera upp hug sinn um framboð á síðustu dögunum áður en frestur rennur út. Mikilvægt er að kjósendur hafi úr nógu mörgum frambjóðendum að velja með þekkingu, reynslu og yfirsýn til að ráðast í gagngera endurskoðun á stjórnarskránni. Með því að efna til þjóðfundar áður en til stjórnlagaþingsins sjálfs kemur er tryggt að raddir og sjónarmið almennings nái eyrum stjórnlagaþings. Hins vegar er ekki ennþá tryggt að við fáum hæfasta fólkið til setu á því. Fyrirkomulag stjórnlagaþingsins getur haft bæði kosti og galla í för með sér. Því er aðeins ætlað að starfa í tvo til fjóra mánuði. Þótt greitt verði þingfararkaup, sömu laun og alþingismenn fá, fyrir setu á þinginu þennan tíma, er það enginn stjórnmálaferill að sitja á stjórnlagaþingi. Þeir sem bjóða sig fram eru í raun fremur að taka ákvörðun um að taka sér frí frá vinnunni í fjóra mánuði en að ákveða að helga sig nýju starfi í fjögur ár, eins og frambjóðendur til Alþingis gera. Margir hafa áhyggjur af því að þetta þýði að hæfasta fólkið gefi ekki kost á sér og stjórnlagaþingið verði samkunda kverúlanta sem hafa ekkert annað að gera en þrasa og þjarka. Með fullri virðingu fyrir kverúlöntum, sem eru hverri þjóð nauðsynlegir, eru þetta skiljanlegar áhyggjur. Á móti kemur að hugsanlega eru margir, sem ekki væru reiðubúnir að fórna fjórum árum af ævi sinni í argaþras stjórnmálanna, til dæmis af því að þar með lækkuðu þeir verulega í launum eða af því að þeir vilja forða sér og fjölskyldu sinni frá óvæginni umræðu og skítkasti um árabil, frekar tilbúnir að helga sig stjórnlagaþinginu í tvo til fjóra mánuði. Það getur vel verið að á þingið veljist fólk, sem margir hafa hvatt til að bjóða sig fram til þings en hefur aldrei látið undan þeim þrýstingi. Ýmis nöfn, sem þegar eru komin fram, benda til að þetta geti orðið raunin - en við þurfum fleiri slík. Það skiptir máli fyrir góða niðurstöðu á stjórnlagaþingi að vinnuveitendur verði reiðubúnir að gefa fólki launalaust frí, sem hefur hug á að taka þar sæti. Hins vegar ættu frambjóðendur að forðast að leita eftir styrkjum til framboðsins. Sennilega voru það mistök hjá Alþingi að heimila frambjóðendum til stjórnlagaþingsins að verja allt að tveimur milljónum króna til kosningabaráttu. Tvær milljónir eru upphæð sem getur fælt hæft fólk frá framboði. Réttast er að frambjóðendur takmarki kynningu á sér sem mest við upplýsingar á einföldum vefsíðum og allir fái síðan sömu kynningu á vegum stjórnvalda, eins og lögin um stjórnlagaþing kveða á um. Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, hvatti til þess í Fréttablaðinu á laugardag að frambjóðendur freistuðust ekki til að kaupa auglýsingar í blöðum eða ljósvakamiðlum. „Stöndum sem jafnast að vígi svo sátt ríki um þá sem munu axla þessa miklu ábyrgð," sagði Guðrún. Það er óhætt að taka undir þá hvatningu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun Munu bara allir fá dánaraðstoð? Bjarni Jónsson Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Hver tilheyrir hverjum? Kristín Davíðsdóttir Skoðun Mannsæmandi lífeyrislaun strax Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun
Nú er tæp vika þar til framboðsfrestur til boðaðs stjórnlagaþings rennur út. Ýmsir mætir einstaklingar hafa greint opinberlega frá framboði sínu en ennþá vantar heilmikið upp á þann fjölda sem á að sitja á þinginu. Sjálfsagt munu margir gera upp hug sinn um framboð á síðustu dögunum áður en frestur rennur út. Mikilvægt er að kjósendur hafi úr nógu mörgum frambjóðendum að velja með þekkingu, reynslu og yfirsýn til að ráðast í gagngera endurskoðun á stjórnarskránni. Með því að efna til þjóðfundar áður en til stjórnlagaþingsins sjálfs kemur er tryggt að raddir og sjónarmið almennings nái eyrum stjórnlagaþings. Hins vegar er ekki ennþá tryggt að við fáum hæfasta fólkið til setu á því. Fyrirkomulag stjórnlagaþingsins getur haft bæði kosti og galla í för með sér. Því er aðeins ætlað að starfa í tvo til fjóra mánuði. Þótt greitt verði þingfararkaup, sömu laun og alþingismenn fá, fyrir setu á þinginu þennan tíma, er það enginn stjórnmálaferill að sitja á stjórnlagaþingi. Þeir sem bjóða sig fram eru í raun fremur að taka ákvörðun um að taka sér frí frá vinnunni í fjóra mánuði en að ákveða að helga sig nýju starfi í fjögur ár, eins og frambjóðendur til Alþingis gera. Margir hafa áhyggjur af því að þetta þýði að hæfasta fólkið gefi ekki kost á sér og stjórnlagaþingið verði samkunda kverúlanta sem hafa ekkert annað að gera en þrasa og þjarka. Með fullri virðingu fyrir kverúlöntum, sem eru hverri þjóð nauðsynlegir, eru þetta skiljanlegar áhyggjur. Á móti kemur að hugsanlega eru margir, sem ekki væru reiðubúnir að fórna fjórum árum af ævi sinni í argaþras stjórnmálanna, til dæmis af því að þar með lækkuðu þeir verulega í launum eða af því að þeir vilja forða sér og fjölskyldu sinni frá óvæginni umræðu og skítkasti um árabil, frekar tilbúnir að helga sig stjórnlagaþinginu í tvo til fjóra mánuði. Það getur vel verið að á þingið veljist fólk, sem margir hafa hvatt til að bjóða sig fram til þings en hefur aldrei látið undan þeim þrýstingi. Ýmis nöfn, sem þegar eru komin fram, benda til að þetta geti orðið raunin - en við þurfum fleiri slík. Það skiptir máli fyrir góða niðurstöðu á stjórnlagaþingi að vinnuveitendur verði reiðubúnir að gefa fólki launalaust frí, sem hefur hug á að taka þar sæti. Hins vegar ættu frambjóðendur að forðast að leita eftir styrkjum til framboðsins. Sennilega voru það mistök hjá Alþingi að heimila frambjóðendum til stjórnlagaþingsins að verja allt að tveimur milljónum króna til kosningabaráttu. Tvær milljónir eru upphæð sem getur fælt hæft fólk frá framboði. Réttast er að frambjóðendur takmarki kynningu á sér sem mest við upplýsingar á einföldum vefsíðum og allir fái síðan sömu kynningu á vegum stjórnvalda, eins og lögin um stjórnlagaþing kveða á um. Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, hvatti til þess í Fréttablaðinu á laugardag að frambjóðendur freistuðust ekki til að kaupa auglýsingar í blöðum eða ljósvakamiðlum. „Stöndum sem jafnast að vígi svo sátt ríki um þá sem munu axla þessa miklu ábyrgð," sagði Guðrún. Það er óhætt að taka undir þá hvatningu.