Gagnrýni

Flottir taktar en full einsleitir textar

Trausti Júlíusson skrifar
Besta lag Hesthússins er Sjúkur, sem er algjört dúndur.
Besta lag Hesthússins er Sjúkur, sem er algjört dúndur.

Tónlist ***

Hesthúsið

Diddi Fel

Diddi Fel er búinn að vera í framvarðasveit íslenska rappsins í nokkur ár. Hann er einn af meðlimum ofursveitarinnar Forgotten Lores og hefur verið iðinn við kolann utan hennar líka. Diddi gaf út plötuna Hvernig rúllar þú? ásamt G. Maris árið 2007 hjá vefútgáfunni Coxbutter, en Hesthúsið er hans fyrsta sólóplata.

Introbeats, félagi Didda úr F.L., á flesta takta á plötunni, en Diddi sér sjálfur um taktana í þremur lögum, Fonetik Simbol í fjórum og BRR í einu. Hesthúsið er hálfgerð þemaplata. Nafnið vísar í graðfola og textarnir fjalla flestir um djammið og stelpurnar. Diddi er flottur rappari með flæðið og tilþrifin í lagi og það er fullt af feitum töktum á plötunni, en maður væri alveg til í aðeins meira kjöt á beinin textalega séð.

Það má alveg hafa gaman af þessum enskuskotnu djammtextum, en þeir halda ekki uppi heilli plötu. Viðlagið úr Let's go! er nokkuð nett: „Ég á "etta show/þó þú shake-ir soldið rassinn baby ert'ekki ho /Ég á 'etta flow/og ef þú ert a fíla Fel komdu Baby lets go". Það eru ekki eintómir djammtextar á plötunni, en heildin er of veik.

Eins og áður segir eru nokkur mjög flott lög á Hesthúsinu. Ég nefni sem dæmi titillagið, Jordan rúls, Gefðu mér pöff, Yfirmenn, Let's go! og besta lag plötunnar Sjúkur sem er algjört dúndur.

Á heildina litið má segja að þetta sé þokkalegasta plata. Vel þegin á meðan við bíðum eftir næstu Forgotten Lores plötu.

Niðurstaða: Það er fullt af flottum töktum á Hesthúsinu og Diddi á fína spretti, en textalega mætti vera meira í hana lagt.

Myndbandið við Sjúkur á YouTube, þar sem Steindi Jr. fer meðal annars á kostum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×