Lífið

Helgi Björns og reiðmenn vindanna koma í hlaðið

linda@frettabladid.is skrifar
Fyrri plata Helga og Reiðmannanna seldist í um 7.000 eintökum.
Fyrri plata Helga og Reiðmannanna seldist í um 7.000 eintökum. fréttablaðið/stefán

Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna hafa sent frá sér aðra plötu sína. Platan inniheldur tólf gömul lög sem hljómsveitin gefur nýjan blæ. Fyrri plata Reiðmannanna seldist í um 7.000 eintökum og er því mikil spenna fyrir nýju plötunni.

„Það leggst mjög vel í mig að platan sé komin út. Það er alltaf mikill áfangi þegar maður kemur út plötu. Þegar maður fer í stúdíó þá er það eins og getnaður eða góðar samfarir. Síðan er það eins og fæðingin þegar þetta kemur fyrir sjónir annarra,“ segir Helgi Björnsson söngvari.

Helgi Björnsson gaf nú í vikunni út plötuna Þú komst í hlaðið með hljómsveitinni Reiðmenn vindanna. Diskurinn inniheldur tólf eldri lög sem fá nú nýjan blæ í meðförum Reiðmannanna. „Sum þessara laga hafa aldrei verið sungin nema þá af kórum eða einsöngvurum. En við setjum þau í aðeins meiri popp/rokk búning og gefum þeim meira grúv,“ segir Helgi, ánægður með árangurinn. „Vinnan á bak við plötuna var mjög skemmtileg. Enda var ég með mjög skemmtilegan hóp með mér.“

Fyrri plata reiðmannanna, sem gefin var út fyrir tveimur árum, sló heldur betur í gegn og seldist í um 7.000 eintökum. Það gefur því auga leið að mikil eftirvænting hefur verið eftir þessari plötu.

Helgi er nú kominn til landsins til að fylgja Reiðmönnunum á Írska daga um helgina, bæði föstudag og laugardag. Einnig verða þeir á hestamannamóti sem haldið verður í Skagafirði um verslunarmannahelgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.