Lífið

Bronser-gel keppir við Silver

Freyr Bjarnason skrifar
Logi Tómasson (til vinstri) og Kolbeinn Þórðarson með Bronser-gelið sitt sem fetar í fótspor hins víðfræga Silver.
Logi Tómasson (til vinstri) og Kolbeinn Þórðarson með Bronser-gelið sitt sem fetar í fótspor hins víðfræga Silver. Fréttablaðið/Vilhelm
Vinirnir Logi Tómasson og Kolbeinn Þórðarson sem eru í 4. bekk í Digranesskóla hafa búið til sitt eigið hárgel sem nefnist Bronser. Fetar það í fótspor gelsins Silver sem silfur- og bronsdrengirnir Logi Geirsson og Björgvin Páll Gústafsson framleiða.

„Fyrst létum við þetta heita d:hi en síðan sagði einhver að einhver gæti kært okkur fyri það. Þá ætlum við að gera bara Bronser af því að við lentum í þriðja sæti,“ segir Logi en d:fi er gel sem hefur verið lengi á markaðnum.

Að sögn Loga er Bronser framleitt út alls konar gelum, vatni og smá sjampói. „Við ætlum líka að gera annað gel sem er aðeins öðruvísi, aðeins harðara,“ segir hann og bætir við að bæði mamma hans og vinir séu hrifin af nýja gelinu. Lyktin sé góð og það virki líka mjög vel.

Logi hefur prófað Silver-gelið og finnst það alveg ágætt. „Það er svolítið slímugt. Silver er eins og Shockwave sem harðnar en okkar er ekki eins stíft.“ 

Logi og Kolbeinn spila báðir handbolta og fótbolta og er Logi handboltamarkmaður rétt eins og Björgvin Páll. 

„Hann er uppáhaldsmarkmaðurinn minn en Aron Pálmarsson er uppáhalds útileikmaðurinn. Hann er svo ungur og góður,“ segir Logi, sem vonast til að setja Bronser á markað von bráðar. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×