Fótbolti

Er Lionel Messi orðinn gítarleikari í hljómsveit til heiðurs Oasis?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enska blaðið The Sun vill meina að Lionel Messi hafi gert meira en að slappa af á ströndinni í sumafríinu.
Enska blaðið The Sun vill meina að Lionel Messi hafi gert meira en að slappa af á ströndinni í sumafríinu. Mynd/AFP
Áhugi Lionel Messi, besta knattspyrnumanns heims, á bresku hljómsveitinni Oasis fékk góða umfjöllun í heimspressunni á meðan á HM í Suður-Afríku stóð. Nú þykist breska slúðurblaðið The Sun hafa komist að því að Messi sé líka tónlistamaður.

Samkvæmt heimildum enska blaðsins kynnti Manchester City maðurinn Carlos Tevez Messi fyrir Gallagher-bræðrunum í Oasis en nú hefur Messi gert gott betur en að skella Oasis-diskunum í græjurnar. Messi hefur, ásamt félaga sínum úr Barcelona, stofnað hljómsveit spilar ekkert nema lög eftir Oasis-manninn Noel Gallagher.

Lionel Messi er í hlutverki Noel Gallagher í hljómsveitinni og spilar á gítarinn en The Sun hafði ekki heimildir fyrir því hvaða Barcelona-leikmaður syngur eins og Liam Gallagher.

The Sun er þekkt fyrir að fara frjálslega með sannleikann en hvort sem að fréttin er sönn eða ekki þá verður hún að teljast góð. Argentínski blaðamaðurinn Clemente Cancela hefur reyndar komið fram og fullyrt það að Messi þekki ekki Oasis en það er önnur saga.

Nýja Oasis-hljómsveitin hans Lionel Messi ætti örugglega að geta selt ófáa miða í Katalóníu enda er aðdáun Katalóníumanna það mikil á Messi að hann er fyrir vikið oft litinn hornauga í heimalandi sínu Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×