Körfubolti

Boston komið í 1-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ray Allen í leiknum í nótt.
Ray Allen í leiknum í nótt. Mynd/AP

Boston Celtics er komið í 1-0 í einvígi sínu gegn Orlando Magic í úrslitum Austurdeildarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Boston vann, 92-88, þó svo að þau fjögur stig sem Paul Pierce og Ray Allen skoruðu úr vítaköstum á lokasekúndum leiksins voru þau einu sem Boston skoraði síðustu fimm og hálfa mínútu leiksins.

Þeir fóru á kostum í leiknum og skoruðu samtals 47 stig fyrir Boston sem vann þar með sinn fjórða leik í röð í úrslitakeppninni.

Varnarleikur Boston var gríðarlega öflugur en Orlando náði aðeins að skora fjórtán stig á fyrstu sextán mínútum leiksins. Boston náði þar með forystu sem Orlando náði aldrei að ógna fyrr en undir lok leiksins.

Þetta var fyrsta tap Orlando í úrslitakeppninni en liðið vann bæði Charlotte og Orlando í fyrstu tveimur umferðunum 4-0.

Allen var með 25 stig, Pierce 22 og Rasheed Wallace þrettán. Hjá Orlando var Vince Carter með 23 stig, Jameer Nelson 20 og Dwight Howard þrettán.

LA Lakers og Phoenix Suns eigast við í úrslitum Vesturdeildarinnar og verður fyrsti leikurinn í þeirri rimmu í Los Angeles í nótt.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×