Íslenski boltinn

Freyr: Hef fulla trú á að við klárum mótið

Kristinn Páll Teitsson skrifar

„Við vissum fyrirfram að þetta yrði erfitt og þetta var mjög erfiður leikur, þetta eru hinsvegar mjög góð þrjú stig," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Valsstúlkna, eftir sigur þeirra í toppslag umferðarinnar þar sem Valur fór með 2-1 sigur á hólm gegn Breiðablik.

„Gæðin í leiknum voru kannski ekki í takt við toppslag, þetta var barátta upp á líf og dauða og núna erum við komin með fjögurra stiga forskot á toppnum og það telur."

Valsstúlkur byrjuðu leikinn afar vel en féllu svo aftur og hleyptu Blikum inn í leikinn, þær náðu þó að skora fyrir hálfleik og koma stöðunni í 2-0.

„Við vorum miklu betri fyrsta korterið eða svo, síðan er eins og við dettum til baka og virðumst vilja halda því sem við höfum. Það kemur þó smá kafli í lokin þar sem við náum öðru markinu og hafði það mikið að segja. Við hefðum átt að sækja og ná þriðja markinu en þær ná því, við náum þó að halda út og taka stigin þrjú. Það er það sem skiptir máli og ég er ánægður með karakterinn að ná að halda þetta út."

Með þessu náðu Valsstúlkur að auka forskot sitt á toppnum, nú hafa þær fjögurra stiga forskot á Þór/KA og sex stiga mun á Breiðablik.

„Það er mjög þægilegt að hafa svona smá pláss en þetta gefur okkur ekkert, ekki fyrr en í september. Við erum þó búnar að vinna vel fyrir þessu  og ég er mjög ánægður með þetta. Við þurfum ekki að treysta á neinn annan og ég hef fulla trú á að stelpurnar mínar klári þetta" sagði Freyr




Fleiri fréttir

Sjá meira


×