Tíska og hönnun

21 hönnuður sýnir á RFF

Ingibjörg Finnbogadóttir og hennar samstarfsmenn hjá RFF vinna nú hörðum höndum að því að gera RFF sem glæsilegasta.
Ingibjörg Finnbogadóttir og hennar samstarfsmenn hjá RFF vinna nú hörðum höndum að því að gera RFF sem glæsilegasta.

Íslenskir tískuunnendur eiga von á góðu þegar Reykjavík Fashion Festival verður sett 31. mars. Erlendir fjölmiðlar sýna íslensku tískuhátíðinni mikinn áhuga.

„Þetta er svipaður fjöldi og í fyrra en okkur bárust um 50 umsóknir sem mjög erfitt var að sía úr," segir Ingibjörg Finnbogadóttir, framkvæmdastýra Reykjavik Fashion Festival, en 21 fatahönnuður mun láta ljós sitt skína á þessari íslensku tískuhátíð næstkomandi vor.

Nokkur ný nöfn eru meðal sýnenda í ár. Merki á borð við ÝR og Shadow Creatures, sem eru að stíga sín fyrstu skref, taka þátt og einnig ætla Hugrún og Magni hjá Kron að vera með en gera má ráð fyrir að þau sýni bæði vinsælu skólínuna og nýja fatalínu sem er væntanleg með vorinu.

Mikill metnaður er hjá aðstandendum hátíðarinnar um að gera RFF sem glæsilegasta og hafa þeir meðal annars fengið til liðs við sig erlendan kynningarstjóra sem sér um að koma hátíðinni á framfæri í útlöndum. „Við ákváðum að það væri skynsamlegt að ráða til okkar einhvern sem gæti hjálpað okkur að verða nafn og draga að okkur fjölmiðlaathygli úti í heimi," segir Ingibjörg, eða Imba eins og hún gjarnan er kölluð.

Margir af fremstu fatahönnuðum landsins ætla að láta ljós sitt skína á RFF. Myndir/Anton
Tískuhátíðin er meðal annars komin inn á dagatal tískuvikna í heiminum sem vefmiðilinn cosmoworlds.com stendur fyrir en það þykir benda til þess að hátíðin sé komin á kortið í hinum stóra heimi.

„Það er náttúrulega frábært að hátíðin á Íslandi sé auglýst á sama stað og stærstu tískuvikurnar. Það dregur hingað rétta fólkið úr bransanum," staðfestir Imba.

Einnig hafa vefmiðlar á borð við Antenna Magazine og The Pleat gert hátíðinni skil á sínum síðum en þar er henni meðal annars lýst sem nýrri von fyrir land í kreppu og að Ísland sé greinlega að virkja sköpunargáfu landsmanna á réttan máta.- áp

RFF





Fleiri fréttir

Sjá meira


×