Páll Baldvin Baldvinsson: Mikillæti Páll Baldvin Baldvinsson skrifar 17. apríl 2010 06:00 Mannlífi hér við ysta haf reynist margt mótdrægt þessi dægrin. Djúpin rymja og af landinu leggur langan slóða suður og austur sem minnir á fyrri öskuský sem ollu á sínum tíma umfangsmiklum byltingum og tímabærum breytingum á stjórnarháttum víða á meginlandi Evrópu. Athygli umheimsins beinist enn hingað norður og aftur eru tíðindin sem héðan berast neikvæð öllum þorra manna. Ekkert lát er á mótlæti okkar. Og á sama tíma og öskusallinn leggst yfir öræfi og gróin héruð er æ ljósara að hula tímans er ekki lögst yfir þær efnahagslegu hamfarir sem skóku samfélagið og skildu það eftir í sárum. Raddir sem kölluðu ákaft eftir að miskar skyldu geymast, jafnvel gleymast, fyrir fáum mánuðum eru nú þagnaðar. Þær minntu um margt á þá tíma í sögu Evrópu þegar krafist var eftirgjafar saka til handa misindismönnum og morðingjum, svo þjóðirnar „mættu líta fram á veginn, ráðast sameinaðar í uppbyggingu". Nú eru litlar líkur á að þær hljómi um sinn. Þvert á móti magnast nú krafa um að embættismenn, stjórnmálamenn og forkólfar í atvinnulífi víki úr sessi og bíði þess að ábornar sakir þeirra verði kannaðar fyrir dómstólum. En hinir grunuðu virðast því miður enn haldnir þeirri skynvillu að athafnir þeirra og æði séu hafnar yfir lög og rétt. Stærilæti og mikillæti hópsins sem gekk á svig við almannahag og olli þjóðarbúi og einkahögum þúsunda miklum búsifjum er þessu fólki svo vendilega í merg runnið að skilsmunur sóma og skammar er því ókunnugur. Undanskot á stórum fjárfúlgum virðist vera almenn regla í umgengni hóps manna um almannasjóði. Og á sama tíma og lögreglan greinir hófstillt frá málsókn á hendur einum manni sem sveik nokkur hundruð milljóna frá tugum einstaklinga er beðið þess að þeir komist undir manna hendur sem sviku þúsundir milljóna, tugþúsundir, hundruð þúsunda milljóna frá tugþúsundum Íslendinga. Enginn friður, engin sátt mun ríkja í samfélaginu fyrr en rannsókn lýkur, ákærur verða bornar fram og réttað er yfir brotamönnunum sem hafa rústað landið. Þeir verði sóttir til saka hvar sem þeir í landleysi sínu hafa holað sér niður í þeirri glópsku að Interpol hafi ekki uppi á þeim. Bragurinn í samfélagi okkar, tíðarandinn, varð ekki til af engu: opinbert líf á Íslandi í nær þrjá áratugi var heltekið af hugsjónum stefnu sem kenndi sig við frjálshyggju, rétttrúnaði sem heimtaði í takt við fyrirferðarmikla stefnu víða um lönd að vald fyrirtækja skyldi ofar öllu, ekki fyrirtækja í atvinnurekstri eða framleiðslu, heldur félaga um fjármagnseigu. Mikillæti er í læknisfræði skilgreint sem tiltekið stig brjálsemi. Í almennri framkomu er það þekkt sem upphafið sjálfstignunarástand sem fer út fyrir skynsemismörk og um þessar mundir má sjá þess víða merki í framgöngu manna að harkalegur árekstur við raunveruleikann dugar ekki til að kenna þeim hver staða þeirra er orðin í mannlegu samfélagi. Þeirri stöðu breytir aðeins hávær og skilyrðislaus krafa almennings um afsagnir þingmanna, embættismanna, eldri lykilmanna sem enn sitja í bankakerfinu. Enginn má við margnum. Brýnt er að hagsmunir hinna fáu fjúki fyrir hagsbót og sálarheill fjöldans. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Páll Baldvin Baldvinsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Mannlífi hér við ysta haf reynist margt mótdrægt þessi dægrin. Djúpin rymja og af landinu leggur langan slóða suður og austur sem minnir á fyrri öskuský sem ollu á sínum tíma umfangsmiklum byltingum og tímabærum breytingum á stjórnarháttum víða á meginlandi Evrópu. Athygli umheimsins beinist enn hingað norður og aftur eru tíðindin sem héðan berast neikvæð öllum þorra manna. Ekkert lát er á mótlæti okkar. Og á sama tíma og öskusallinn leggst yfir öræfi og gróin héruð er æ ljósara að hula tímans er ekki lögst yfir þær efnahagslegu hamfarir sem skóku samfélagið og skildu það eftir í sárum. Raddir sem kölluðu ákaft eftir að miskar skyldu geymast, jafnvel gleymast, fyrir fáum mánuðum eru nú þagnaðar. Þær minntu um margt á þá tíma í sögu Evrópu þegar krafist var eftirgjafar saka til handa misindismönnum og morðingjum, svo þjóðirnar „mættu líta fram á veginn, ráðast sameinaðar í uppbyggingu". Nú eru litlar líkur á að þær hljómi um sinn. Þvert á móti magnast nú krafa um að embættismenn, stjórnmálamenn og forkólfar í atvinnulífi víki úr sessi og bíði þess að ábornar sakir þeirra verði kannaðar fyrir dómstólum. En hinir grunuðu virðast því miður enn haldnir þeirri skynvillu að athafnir þeirra og æði séu hafnar yfir lög og rétt. Stærilæti og mikillæti hópsins sem gekk á svig við almannahag og olli þjóðarbúi og einkahögum þúsunda miklum búsifjum er þessu fólki svo vendilega í merg runnið að skilsmunur sóma og skammar er því ókunnugur. Undanskot á stórum fjárfúlgum virðist vera almenn regla í umgengni hóps manna um almannasjóði. Og á sama tíma og lögreglan greinir hófstillt frá málsókn á hendur einum manni sem sveik nokkur hundruð milljóna frá tugum einstaklinga er beðið þess að þeir komist undir manna hendur sem sviku þúsundir milljóna, tugþúsundir, hundruð þúsunda milljóna frá tugþúsundum Íslendinga. Enginn friður, engin sátt mun ríkja í samfélaginu fyrr en rannsókn lýkur, ákærur verða bornar fram og réttað er yfir brotamönnunum sem hafa rústað landið. Þeir verði sóttir til saka hvar sem þeir í landleysi sínu hafa holað sér niður í þeirri glópsku að Interpol hafi ekki uppi á þeim. Bragurinn í samfélagi okkar, tíðarandinn, varð ekki til af engu: opinbert líf á Íslandi í nær þrjá áratugi var heltekið af hugsjónum stefnu sem kenndi sig við frjálshyggju, rétttrúnaði sem heimtaði í takt við fyrirferðarmikla stefnu víða um lönd að vald fyrirtækja skyldi ofar öllu, ekki fyrirtækja í atvinnurekstri eða framleiðslu, heldur félaga um fjármagnseigu. Mikillæti er í læknisfræði skilgreint sem tiltekið stig brjálsemi. Í almennri framkomu er það þekkt sem upphafið sjálfstignunarástand sem fer út fyrir skynsemismörk og um þessar mundir má sjá þess víða merki í framgöngu manna að harkalegur árekstur við raunveruleikann dugar ekki til að kenna þeim hver staða þeirra er orðin í mannlegu samfélagi. Þeirri stöðu breytir aðeins hávær og skilyrðislaus krafa almennings um afsagnir þingmanna, embættismanna, eldri lykilmanna sem enn sitja í bankakerfinu. Enginn má við margnum. Brýnt er að hagsmunir hinna fáu fjúki fyrir hagsbót og sálarheill fjöldans.