Að missa ekki spýjuna Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar 14. september 2010 06:00 Til langs tíma var mestur fréttaflutningur frá Íslandi á þá leið að himinn og haf myndu farast ef ríkisstjórnin brygðist ekki við aðsteðjandi vanda með stórtækum aðgerðum. Þetta voru vandamál eins og Icesavedeilan, gengislánin, gjaldeyrishöftin, atvinnuástandið, þá sérstaklega á Suðurnesjum, og uppræting spillingarinnar svo eitthvað sé nú nefnt. Alltaf urðu þó aðgerðirnar mun minni en vandinn gaf tilefni til. Hinu verður þó að halda til haga, svo ríkisstjórnin njóti nú sannmælis, að himinn og haf mætast enn við sjóndeildarhringinn og virðist ekkert lát ætla að verða á því í bráð. Eina kvöldstund var ég samt að spá í það hvernig stæði á því að ríkisstjórnin hegðaði sér svona í slíku ástandi. Ég horfði til himins og spurði alheiminn, að hætti Paulo Coelho, hvers vegna hún brygðist ekki almennilega við og alheimurinn lét ekki á svarinu standa. Morguninn eftir vaknaði ég með flensu, var einnig illa flökurt og töluvert þyrstur. Þá vaknaði sú spurning hvort ég ætti að fara fram og gera eitthvað í mínum málum. Ég svaraði því neitandi. Í fyrsta lagi vegna þess að ég hefði getað misst spýjuna á óheppilegum stað en þegar það gerist horfir konan á mig líkt og ég sé við dauðans dyr. „Ertu svona lasinn, greyið mitt," segir hún þá með vorkunnarsvip svo ástand mitt versnar og skömmin eykst. Í annan stað eru allar veikindasögur mun svæsnari og dramatískari ef uppköst fylgja með og ég vildi ekki vekja slíka úlfúð. Í þriðja lagi erum við nýflutt í blokk í borginni Priego de Córdoba á Suður-Spáni þar sem hvísl heyrist íbúða á milli. Priegobúar eru ekki vel að sér í Egilssögu Skallagrímssonar svo að uppköst vekja með þeim óhug frekar en aðdáun. Heyrðu þeir spýjulætin gætu þeir dregið þá ályktun að ég væri dópisti og slíkt orðspor er vonlaust veganesti í ný nágrannakynni. Í stað þess að bregðast við eins og Megas forðum og segja „afsakið meðan ég æli" ákvað ég því að liggja í fletinu og varna því að mér versnaði og dramatíkin tæki yfirhöndina. Það voru mistök enda er ég með hræðilega bakþanka. Ég öðlaðist þó þennan morgun djúpan skilning á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Sigurður Eyjólfsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Til langs tíma var mestur fréttaflutningur frá Íslandi á þá leið að himinn og haf myndu farast ef ríkisstjórnin brygðist ekki við aðsteðjandi vanda með stórtækum aðgerðum. Þetta voru vandamál eins og Icesavedeilan, gengislánin, gjaldeyrishöftin, atvinnuástandið, þá sérstaklega á Suðurnesjum, og uppræting spillingarinnar svo eitthvað sé nú nefnt. Alltaf urðu þó aðgerðirnar mun minni en vandinn gaf tilefni til. Hinu verður þó að halda til haga, svo ríkisstjórnin njóti nú sannmælis, að himinn og haf mætast enn við sjóndeildarhringinn og virðist ekkert lát ætla að verða á því í bráð. Eina kvöldstund var ég samt að spá í það hvernig stæði á því að ríkisstjórnin hegðaði sér svona í slíku ástandi. Ég horfði til himins og spurði alheiminn, að hætti Paulo Coelho, hvers vegna hún brygðist ekki almennilega við og alheimurinn lét ekki á svarinu standa. Morguninn eftir vaknaði ég með flensu, var einnig illa flökurt og töluvert þyrstur. Þá vaknaði sú spurning hvort ég ætti að fara fram og gera eitthvað í mínum málum. Ég svaraði því neitandi. Í fyrsta lagi vegna þess að ég hefði getað misst spýjuna á óheppilegum stað en þegar það gerist horfir konan á mig líkt og ég sé við dauðans dyr. „Ertu svona lasinn, greyið mitt," segir hún þá með vorkunnarsvip svo ástand mitt versnar og skömmin eykst. Í annan stað eru allar veikindasögur mun svæsnari og dramatískari ef uppköst fylgja með og ég vildi ekki vekja slíka úlfúð. Í þriðja lagi erum við nýflutt í blokk í borginni Priego de Córdoba á Suður-Spáni þar sem hvísl heyrist íbúða á milli. Priegobúar eru ekki vel að sér í Egilssögu Skallagrímssonar svo að uppköst vekja með þeim óhug frekar en aðdáun. Heyrðu þeir spýjulætin gætu þeir dregið þá ályktun að ég væri dópisti og slíkt orðspor er vonlaust veganesti í ný nágrannakynni. Í stað þess að bregðast við eins og Megas forðum og segja „afsakið meðan ég æli" ákvað ég því að liggja í fletinu og varna því að mér versnaði og dramatíkin tæki yfirhöndina. Það voru mistök enda er ég með hræðilega bakþanka. Ég öðlaðist þó þennan morgun djúpan skilning á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.