Körfubolti

Nýliði hjá Utah tryggði liðinu sigur á Cleveland í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sundiata Gaines í leiknum í nótt.
Sundiata Gaines í leiknum í nótt. Mynd/AP

Nýliðinn Sundiata Gaines tryggði Utah Jazz 97-96 sigur á Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en leikið var á Salt Lake City. Gaines skoraði sigurkörfuna með þriggja stiga skoti um leið og klukkan rann út en þetta var fyrsta þriggja stiga karfan hans á NBA-ferlinum.

Cleveland var sex stigum yfir í leiknum þegar aðeins 32,5 sekúndur voru eftir af leiknum en Utah nýtt lokasekúndurnar vel á sama tíma og leikmenn Cleveland brugðust á vítalínunni.

Sundiata Gaines skoraði alls níu stig í leiknum á níu mínútum en hann hitti úr öllum skotum sínum utan af velli. Gaines var aðeins að leika sinn fimmta leik í NBA eða síðan að hann gerði tíu daga samning við Jazz-liðið eftir að Deron Williams meiddist á hendi.

LeBron James skoraði 20 af 36 stigum sínum í fjórða leikhluta en hann var auk þess með 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Carlos Boozer var með 19 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar hjá Utah.

Chicago Bulls vann þrettán stiga útisigur á Boston Celtics, 96-83, í hinum leik NBA-deildarinnar í nótt. Luol Deng var með 25 stig í aðeins öðrum sigri liðsins í síðustu tólf útileikjum.

Derrick Rose bætti við 17 stigum fyrir Bulls-liðið og Joakim Noah var með 15 stig, 11 fráköst og 4 varin skot en þetta var þriðji sigur Chicago í röð.

Paul Pierce skoraði 20 stig fyrir Boston og Rajon Rondo var með 15 stig en þetta var 6 heimatap liðsins í 17 leikjum á tímabilinu sem er jafnmörg heimatöp og undanfarin tvö heil tímabil.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×