Arðrænandi launþegar Sif Sigmarsdóttir skrifar 8. desember 2010 06:00 „Bankageirinn er eins og lifrin," sagði ungur, prúðbúinn maður sem stóð við hliðina á mér við barinn á samkundu í Lundúnum nýverið. Þrátt fyrir litla þekkingu á bæði bankastarfsemi og líffræði - og enn minni áhuga - gat ég ekki látið hjá líða að krefja manninn skýringar á óvenjulegri samlíkingunni. Viðkomandi reyndist starfsmaður hins Konunglega skoska banka í borginni og stóð ekki á svörunum. „Allir peningar, lán og skuldir flæða gegnum okkur," útskýrði hann um leið og hann vafði stuttum, digrum fingrum um fíngert kampavínsglas. „Við skiljum milli næringarinnar sem við komum áfram til þeirra sem þurfa á henni að halda og úrgangsins sem við losum okkur við. Lifrin þjónustar öll önnur líffæri líkamans og án hennar dettum við niður dauð." Hann fékk sér gúlsopa og glotti. „Þess vegna verður bankageiranum aldrei leyft að fara á hausinn og við í bransanum getum gert allt það sem okkur sýnist." Þótt mér þætti viðmælandi minn eiga meira sammerkt með öðrum ónefndum líkamshluta sem einnig sér um úrgangslosun en lifrinni reyndist hann hafa á réttu að standa að öðru leyti. Næsta dag létu bresk stjórnvöld af áætlunum um lög sem verið höfðu í bígerð og krefja áttu banka þar í landi um gegnsæi þegar kemur að launum og bónusum starfsmanna. Áfram gera því bankarnir „það sem þeim sýnist". Heildarframmistaða hlutabréfa í breskum bönkum á síðastliðnum tíu árum hefur verið léleg. Mörgum þeirra var bjargað af breska ríkinu með skattfé almennings. Á sama tímabili hafa laun og bónusar lykilstarfsmanna bankastofnana rokið upp. Fyrsti áratugur 21. aldarinnar reyndist því góður og gjöfull tími til að vinna hjá banka en skitinn tími til að eiga banka. Á 19. öld voru arðgreiðslur til fjármagnseigenda kallaðar arðrán; verið var að hirða arð af vinnu starfsmanna - verkalýðnum. Arðráni 21. aldarinnar er öfugt farið: Starfsmenn hirða arðinn af vinnu fjármagnsins og hluthafar sitja eftir með sárt ennið. Spariféð sem hluturinn var keyptur fyrir er brunnið upp og lífeyririnn er skertur vegna þess hve mikið lífeyrissjóðirnir fjárfestu í sömu stofnunum. Á tyllidögum tala ríkisstjórnir um heim allan um að kúltúr ofurlauna og bónusa hafi átt þátt í að bankakerfið strandaði og taka verði á vandanum. Þótt bónusatímabil gangi nú í garð á ný virðast aðgerðir hvergi í sjónmáli. Ef bankageirinn er eins og lifrin er hann skorpulifur; gamalt, lúið og illa starfhæft líffæri sem þarf nauðsynlega á lífstílsbreytingu að halda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Sif Sigmarsdóttir Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
„Bankageirinn er eins og lifrin," sagði ungur, prúðbúinn maður sem stóð við hliðina á mér við barinn á samkundu í Lundúnum nýverið. Þrátt fyrir litla þekkingu á bæði bankastarfsemi og líffræði - og enn minni áhuga - gat ég ekki látið hjá líða að krefja manninn skýringar á óvenjulegri samlíkingunni. Viðkomandi reyndist starfsmaður hins Konunglega skoska banka í borginni og stóð ekki á svörunum. „Allir peningar, lán og skuldir flæða gegnum okkur," útskýrði hann um leið og hann vafði stuttum, digrum fingrum um fíngert kampavínsglas. „Við skiljum milli næringarinnar sem við komum áfram til þeirra sem þurfa á henni að halda og úrgangsins sem við losum okkur við. Lifrin þjónustar öll önnur líffæri líkamans og án hennar dettum við niður dauð." Hann fékk sér gúlsopa og glotti. „Þess vegna verður bankageiranum aldrei leyft að fara á hausinn og við í bransanum getum gert allt það sem okkur sýnist." Þótt mér þætti viðmælandi minn eiga meira sammerkt með öðrum ónefndum líkamshluta sem einnig sér um úrgangslosun en lifrinni reyndist hann hafa á réttu að standa að öðru leyti. Næsta dag létu bresk stjórnvöld af áætlunum um lög sem verið höfðu í bígerð og krefja áttu banka þar í landi um gegnsæi þegar kemur að launum og bónusum starfsmanna. Áfram gera því bankarnir „það sem þeim sýnist". Heildarframmistaða hlutabréfa í breskum bönkum á síðastliðnum tíu árum hefur verið léleg. Mörgum þeirra var bjargað af breska ríkinu með skattfé almennings. Á sama tímabili hafa laun og bónusar lykilstarfsmanna bankastofnana rokið upp. Fyrsti áratugur 21. aldarinnar reyndist því góður og gjöfull tími til að vinna hjá banka en skitinn tími til að eiga banka. Á 19. öld voru arðgreiðslur til fjármagnseigenda kallaðar arðrán; verið var að hirða arð af vinnu starfsmanna - verkalýðnum. Arðráni 21. aldarinnar er öfugt farið: Starfsmenn hirða arðinn af vinnu fjármagnsins og hluthafar sitja eftir með sárt ennið. Spariféð sem hluturinn var keyptur fyrir er brunnið upp og lífeyririnn er skertur vegna þess hve mikið lífeyrissjóðirnir fjárfestu í sömu stofnunum. Á tyllidögum tala ríkisstjórnir um heim allan um að kúltúr ofurlauna og bónusa hafi átt þátt í að bankakerfið strandaði og taka verði á vandanum. Þótt bónusatímabil gangi nú í garð á ný virðast aðgerðir hvergi í sjónmáli. Ef bankageirinn er eins og lifrin er hann skorpulifur; gamalt, lúið og illa starfhæft líffæri sem þarf nauðsynlega á lífstílsbreytingu að halda.