Tónlist

Gósentíð handboltarokkara

Rokkararnir í Godsmack gefa út sína fimmtu hljóðversplötu, The Oracle, 4. maí næstkomandi.
Rokkararnir í Godsmack gefa út sína fimmtu hljóðversplötu, The Oracle, 4. maí næstkomandi.
Svokallaðir handboltarokkarar eiga gósentíð í vændum miðað við þær plötur sem líta nú dagsins ljós hver á fætur annarri. Það eru hljómsveitirnar Godsmack, Stone Temple Pilots, Good Charlotte, Bullet For My Valentine og Drowning Pool sem bjóða í veisluna.

Godsmack gefur út sína fimmtu hljóðversplötu, The Oracle, 4. maí næstkomandi. Sveitin kemur frá Massachusetts í Bandaríkjunum og var stofnuð árið 1995 af forsprakkanum Sully Erna, sem hefur nefnt hinn sáluga Laney Staley úr Alice In Chains sem helsta áhrifavald sinn.

Tvær plötur sveitarinnar, Faceless og IV, hafa komist í efsta sæti Billboard-sölulistans. Hafa þær fest hana í sessi sem eina vinsælustu þungarokkssveit síðasta áratugar í Bandaríkjunum, enda hafa plötur hennar selst í yfir nítján milljónum eintaka um heim allan. Á meðal vinsælustu laga Godsmack eru Straight Out Of Line, Awake og I Stand Alone sem hljómaði í ævintýramyndinni The Scorpion King.



Scott Weiland er mættur aftur með Stone Temple Pilots eftir langt hlé.
Stone Temple Pilots öðlaðist heimsfrægð þegar grunge-bylgjan reist hátt í byrjun tíunda áratugarins. Sveitin fékk Grammy-styttu fyrir slagarann Plush og hafa plötur sveitarinnar selst í tæpum fjörutíu milljónum eintaka. Geri aðrir betur.

Stone Temple hætti störfum 2003 eftir slagsmál söngvarans Scotts Weiland og gítarleikarans Deans DeLeo og eftir það gekk Weiland til liðs við Velvet Revolver. Núna hefur Stone Temple Pilots verið endurreist, allir eru orðnir vinir aftur og fyrsta hljóðversplatan í níu ár kemur út 25. maí. Athygli vekur að Atlanta gefur plötuna út en fyrirtækið höfðaði fyrir tveimur árum mál gegn Weiland og trommaranum Eric Kretz fyrir meint samningsbrot.



Joel Madden er forsprakki Good Charlotte sem gefur út Cardiology 11. maí.
Good Charlotte spilar létt pönk-rokk í anda Blink 182 og Green Day. Fimmta plata sveitarinnar, Cardiology, er væntanleg 11. maí. Good Charlotte, sem er skírð eftir samnefndri barnabók, var stofnuð í Maryland í Bandaríkjunum 1995. Önnur plata sveitarinnar, The Young And The Hopeless, skaut henni upp á stjörnuhimininn og sömuleiðis söngvaranum Joel Madden.

Einkalíf hans hefur verið áberandi í fjölmiðlum, sérstaklega eftir að hann byrjaði með raunveruleikastjörnunni Nicole Richie. Þau eiga tvö börn saman og ætla að ganga upp að altarinu á næstunni.

Drowning Pool spilar eilítið harðara rokk, nokkuð í anda Godsmack. Fjórða plata sveitarinnar, samnefnd henni, kom út á þriðjudaginn. Drowning Pool var stofnuð í Dallas 1996 og er á mála hjá útgáfufyrirtækinu Eleven Seven Music ásamt sveitum á borð við Mötley Crüe og Blondie. Tíð söngvaraskipti hafa verið hjá Drowning Pool. Eftir að upphaflegi söngvarinn Dave Williams lést úr hjartasjúkdómi 2002 aðeins þrítugur hljóp Jason Jones í hans skarð. Eftir að hann hætti gekk Ryan McCombs til liðs við sveitina áður en Full Circle kom út 2007 og er hann enn að.

Bullet For My Valentine kemur frá Wales og spilar þungarokk þar sem gamaldags gítartilþrif eru áberandi. Sveitin hóf störf með því að spila lög Metallica og Nirvana undir nafninu Jeff Killed John. Árið 2002 gerði hún fimm platna samning við Sony BMg og kom fyrsta platan, The Poison, út 2005. Sveitin, sem gaf út sína þriðju plötu, Fever á þriðjudag, hefur selt yfir tvær milljónir platna á ferli sínum.

freyr@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.