Áhrif hrunsins að fjara út? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 20. desember 2010 06:15 Fréttablaðið birti um helgina athyglisverðar niðurstöður úr nýrri könnun Markaðs- og miðlarannsókna (MMR) á fylgi stjórnmálaflokkanna og hversu vel fólk treystir þeim til að hafa forystu í tilteknum málaflokkum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar áður; í apríl í fyrra og í febrúar síðastliðnum. Niðurstaðan af samanburði á þessum könnunum er í stuttu máli sú að bæði fylgi og traust stjórnarflokkanna tveggja hrynur frá því á hveitibrauðsdögum vinstri stjórnarinnar í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn sækir hins vegar mjög í sig veðrið. Í apríl í fyrra sögðust þannig tæplega 60% kjósenda ætla að kjósa annan hvorn stjórnarflokkinn. Þá sagðist jafnframt meirihluti svarenda treysta öðrum hvorum stjórnarflokknum bezt til að hafa forystu í öllum málaflokkunum þrettán, sem MMR spurði um. Nú hefur samanlagt fylgi stjórnarflokkanna fallið í um 37% og í engum málaflokki segist meirihluti treysta öðrum hvorum þeirra bezt til að fara með forystu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur á sama tíma hækkað úr 30,8% í 40,4% og hann nýtur mests trausts kjósenda í ellefu af þrettán málaflokkum. Stjórnarflokkarnir hafa augljóslega glutrað úr höndum sér því mikla tækifæri sem fyrsta hreinræktaða vinstri stjórnin fékk eftir hrunið. Traust á Sjálfstæðisflokknum var þá í lágmarki og margir kenndu honum um hvernig fór við stjórn efnahagslífsins. Forystumenn stjórnarflokkanna töluðu þá digurbarkalega um að nú væri færi á að ýta Sjálfstæðisflokknum og hugmyndum hans til hliðar í íslenzkum stjórnmálum og það til frambúðar. Á rúmlega hálfu öðru ári hefur þeim sem treysta stjórnarflokkunum til að leiða endurreisn atvinnulífsins fækkað um meira en helming. Aðeins tæpur fjórðungur kjósenda telur annan hvorn stjórnarflokkinn nú til þess fallinn. Það vekur sömuleiðis athygli hversu mikið traust stjórnarflokkarnir hafa misst í málaflokkum sem þeir fara með í ríkisstjórninni, til dæmis VG í menntamálum, skattamálum, umhverfismálum og samningum um Icesave og Samfylkingin í heilbrigðismálum, efnahagsmálum og samningum við Evrópusambandið (þar sem flokkurinn hefur tapað forystunni í hendur Sjálfstæðisflokknum!). Flestir telja þó enn VG bezt treystandi til að hafa forystu í umhverfismálum og um rannsóknir á tildrögum bankahrunsins. Niðurstöður könnunar MMR benda til að áhrif hrunsins á valdahlutföll og traust á stjórnmálaflokkunum séu að byrja að ganga til baka. Það grillir aftur í hið hefðbundna fjögurra flokka mynztur sem hefur reynzt svo dæmalaust lífseigt í íslenzku stjórnmálalífi. Forystumenn stjórnarflokkanna, sem hugðust breyta þessu til frambúðar, geta engum um kennt nema sjálfum sér að hafa glutrað tækifærinu niður. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Fréttablaðið birti um helgina athyglisverðar niðurstöður úr nýrri könnun Markaðs- og miðlarannsókna (MMR) á fylgi stjórnmálaflokkanna og hversu vel fólk treystir þeim til að hafa forystu í tilteknum málaflokkum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar áður; í apríl í fyrra og í febrúar síðastliðnum. Niðurstaðan af samanburði á þessum könnunum er í stuttu máli sú að bæði fylgi og traust stjórnarflokkanna tveggja hrynur frá því á hveitibrauðsdögum vinstri stjórnarinnar í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn sækir hins vegar mjög í sig veðrið. Í apríl í fyrra sögðust þannig tæplega 60% kjósenda ætla að kjósa annan hvorn stjórnarflokkinn. Þá sagðist jafnframt meirihluti svarenda treysta öðrum hvorum stjórnarflokknum bezt til að hafa forystu í öllum málaflokkunum þrettán, sem MMR spurði um. Nú hefur samanlagt fylgi stjórnarflokkanna fallið í um 37% og í engum málaflokki segist meirihluti treysta öðrum hvorum þeirra bezt til að fara með forystu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur á sama tíma hækkað úr 30,8% í 40,4% og hann nýtur mests trausts kjósenda í ellefu af þrettán málaflokkum. Stjórnarflokkarnir hafa augljóslega glutrað úr höndum sér því mikla tækifæri sem fyrsta hreinræktaða vinstri stjórnin fékk eftir hrunið. Traust á Sjálfstæðisflokknum var þá í lágmarki og margir kenndu honum um hvernig fór við stjórn efnahagslífsins. Forystumenn stjórnarflokkanna töluðu þá digurbarkalega um að nú væri færi á að ýta Sjálfstæðisflokknum og hugmyndum hans til hliðar í íslenzkum stjórnmálum og það til frambúðar. Á rúmlega hálfu öðru ári hefur þeim sem treysta stjórnarflokkunum til að leiða endurreisn atvinnulífsins fækkað um meira en helming. Aðeins tæpur fjórðungur kjósenda telur annan hvorn stjórnarflokkinn nú til þess fallinn. Það vekur sömuleiðis athygli hversu mikið traust stjórnarflokkarnir hafa misst í málaflokkum sem þeir fara með í ríkisstjórninni, til dæmis VG í menntamálum, skattamálum, umhverfismálum og samningum um Icesave og Samfylkingin í heilbrigðismálum, efnahagsmálum og samningum við Evrópusambandið (þar sem flokkurinn hefur tapað forystunni í hendur Sjálfstæðisflokknum!). Flestir telja þó enn VG bezt treystandi til að hafa forystu í umhverfismálum og um rannsóknir á tildrögum bankahrunsins. Niðurstöður könnunar MMR benda til að áhrif hrunsins á valdahlutföll og traust á stjórnmálaflokkunum séu að byrja að ganga til baka. Það grillir aftur í hið hefðbundna fjögurra flokka mynztur sem hefur reynzt svo dæmalaust lífseigt í íslenzku stjórnmálalífi. Forystumenn stjórnarflokkanna, sem hugðust breyta þessu til frambúðar, geta engum um kennt nema sjálfum sér að hafa glutrað tækifærinu niður.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun