Körfubolti

Shaquille O’Neal á leiðinni til Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O’Neal.
Shaquille O’Neal. Mynd/Getty Images
Shaquille O'Neal virðist loksins vera búinn að finna lið sem vill fá hann í NBA-deildinni á næsta tímabili. Lið hafa ekki sýnt O'Neal mikinn áhuga til þessa í sumar en nú segja bandarískir fjölmiðlar að Shaq sé nálægt því að semja við Boston Celtics.

Kendrick Perkins meiddist illa á hné í úrslitakeppninni og missir nokkra mánuði af tímabilinu en Boston er þegar búið að semja við Jermaine O'Neal um að fylla í hans skarð. Shaquille O'Neal verður því væntanlega varamaður nafna síns.

Shaq er víst tilbúinn að taka lágmarkslaun til þess að reyna að vinna fimmta titilinn sinn á ferlinum. Hann mun væntanlega stíga inn í hlutverk hins skapheita Rasheed Wallace sem lagði skónna upp á hillu eftir síðasta tímabil.

Shaquille O'Neal mun vissulega hjálpa Boston-liðinu til að byrja með en spilatími hans gæti minnkað mikið þegar Perkins kemur til baka. Það mun reyna á Doc Rivers að halda þeim Shaquille O'Neal, Jermaine O'Neal, Kendrick Perkins, Kevin Garnett og Glen Davis öllum góðum.

Shaquille O'Neal er orðinn 38 ára gamall og er að fara að hefja sitt nítjánda tímabil í NBA-deildinni. Hann er fimmti stigahæsti leikmaður sögunnar með 28255 stig í 1170 leikjum sem gera 24,1 stig að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×