Fastir pennar

Forseti Íslands

Þorsteinn Pálsson skrifar

Sumir þeirra sem gagnrýndu forseta Íslands hvað mest fyrir að synja um staðfestingu á fjölmiðlalögunum 2004 hrósa honum nú fyrir að vera samkvæmur sjálfum sér.Samkvæmni getur að sönnu verið dyggð. Menn verða hins vegar ekki dyggðugir með því að endurtaka mistök sín. Hrósið er því hvorki málefnalegt né maklegt.

Núverandi forseti hefur nokkrum sinnum rökstutt undirskrift og synjun á undirskrift laga. Hann rökstuddi undirskrift á lögum um málefni öryrkja með því að deilan um þau snerist um stjórnarskrá og dómstólar ættu úrlausn þar um en ekki þjóðin. Deilan um fjölmiðlalögin snerist líka um stjórnarskrá. Þá var hins vegar breytt um rökstuðning og vísað til gjár milli þings og þjóðar.

Í haustlögunum um Icesave voru tilteknir efnisþættir laganna notaðir sem rökstuðningur fyrir því að þjóðin ætti ekki rétt á að greiða atkvæði þrátt fyrir gjá milli þings og þjóðar. Nú kemur enn nýr rökstuðningur um að valdið sé hjá forsetanum og þjóðinni en ekki Alþingi. Af þessu má sjá að forsetinn hefur aldrei verið samkvæmur sjálfum sér í rökstuðningi sínum.

Þegar forseti Íslands kemur fram í BBC talar hann gegn málstað og ákvörðunum ríkisstjórnar og Alþingis. Stjórnarandstaðan hefur vissulega um margt borið fram réttmæta gagnrýni á ríkisstjórnina. Sú staðreynd breytir ekki hinu að það er stjórnskipulega ótæk og óverjandi staða í þessu máli og öðrum sem upp kunna að koma síðar að þjóðhöfðinginn sé í stælum við ríkisstjórn sína og tali öðru máli en hún á erlendum vettvangi.

Allt varpar þetta ljósi á nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni og tryggja meiri festu og ábyrgð varðandi ákvarðanir um þau mál sem ganga eiga til þjóðaratkvæðis. Tillögur þar um nutu ekki stuðnings í stjórnarskrárnefnd 2005 til 2007. Nú ætti að vera unnt að sameina menn um skynsamlegar breytingar.







Ríkisráð og vald forsætisráðherra

Lög skal bera upp í ríkisráði. Eftir venju hafa ágreiningslaus mál verið afgreidd utan ríkisráðsfundar og síðar fengið staðfestingu í ríkisráði. Starfsreglur um ríkisráð gera ráð fyrir að ágreiningsmál milli ráðherra séu afgreidd í ríkisráðinu. Því fremur á það við ef ágreiningur er milli forseta og ráðherra.

Málsmeðferð í ríkisráði tryggir að ráðherra eigi þess kost að láta uppi álit um mál á réttum stjórnskipulegum vettvangi. Gildi stjórnarathafnar getur ráðist af því hvort þessa réttar er gætt. Þegar um er að ræða ágreining milli þeirra sem ákvarðanir taka í ríkisráði getur skipt enn meira máli um gildi ákvarðana hvort þær fara fram á fundum ríkisráðs eða ekki. Enginn dómur verður þó lagður hér á gildi síðustu ákvörðunar forseta. Hún vekur eigi að síður þessa spurningu.

Ríkisráð kemur saman eftir ákvörðun forsætisráðherra. Hann ber líka ábyrgð á að forseti Íslands virði stjórnskipulegar málsmeðferðarreglur. Forsætisráðherra var því bæði rétt og skylt að tryggja að ákvörðun forseta ætti sér stað í ríkisráði og fjármálaráðherra fengi tækifæri á þeim rétta vettvangi til röksemdafærslu og að bóka ágreiningsálit. Sömu mistök voru gerð 2004.

Í báðum tilvikum hefði viðkomandi forsætisráðherra aukheldur styrkt stöðu sína með réttri og vandaðri málsmeðferð. Forsætisráðherra hefði þá stýrt upplýsingagjöf til þjóðarinnar um niðurstöðuna í samræmi við stjórnskipulega ábyrgð sína.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir taldi rétt að rökstyðja undirritun laga um aðild að EES óskaði hún eftir að sú stjórnarathöfn færi fram á fundi ríkisráðs. Forsætisráðherra var því sammála. Það sýndi réttan skilning á stjórnskipunarreglum ríkisins og bar vott um virðingu beggja fyrir stjórnarskránni og málsmeðferðarreglum. Því fremur er það mikilvægt þegar forseti gengur gegn ríkisstjórninni.



Ábyrgð og forysta Sú fullyrðing forseta Íslands á BBC að fyrir liggi að Íslendingar ætli að standa við skuldbindingar sínar er röng og ósönn. Hann hefur sett mál í þann farveg að þjóðin á að ákveða hvort staðið verður við skuldbindingar samkvæmt samningi eða þeim hafnað. Það eru einu úrræðin sem þjóðin hefur á atkvæðaseðli forsetans.

Hafni þjóðin skuldbindingum samkvæmt samningnum hefur hún talað. Enginn veit þá hvort mögulegt verður að koma nýjum fleti upp.

Ugglaust er það svo að margir þeir sem eru andvígir samningnum gætu hugsað sér að fallast á hagstæðari samning. Sá kostur liggur hins vegar ekki á borðinu. Alþingi getur verið vettvangur málamiðlana. Þjóðaratkvæði snýst um já eða nei. Í þessu tilviki að samþykkja skuldbindingar eða hafna þeim. Rangfærslur um þetta eru vond málsvörn á erlendum vettvangi.

Ríkisstjórnin gerði þau alvarlegu mistök í upphafi að taka málið ekki upp sem milliríkjamál á vettvangi forsætisráðherra. Þingflokkur sjálfstæðismanna lagði til á liðnu hausti að Evrópusambandið yrði fengið til þess að hafa milligöngu um nýjar viðræður og hagstæðari skilmála. Ríkisstjórnin hafnaði þeirri tillögu.

Nú hefur fyrrum formaður Samfylkingarinnar lagt fram svipaða hugmynd. Hún byggir á því að taka málið úr þeim farvegi sem forsetinn hefur sett það í. Það er skynsamlegt. Þegar alvarlegur ágreiningur er uppi eiga lýðræðislega kjörnir stjórnmálaforingjar ekki að afsala sér ábyrgð í nafni lýðræðisástar. Einmitt þá reynir á forystu. Þjóðin bíður eftir henni.








×