Siðað samfélag Guðmundur Andri Thorsson skrifar 4. október 2010 06:00 Alþingishúsið og dómkirkjan við Austurvöll eru ekki kuldalegar og yfirlætisfullar byggingar eins og fylltu Borgartúnið í Bólunni. Þær spjátra sig ekki. Þær segja ekki: Sjáið stærðina, sjáið valdið, auðinn, ósnertanleikann - hér uppi erum við, þarna niðri eruð þið. Þetta eru gömul hús; stór þegar þau voru reist en með stækkandi bæ hafa þau minnkað svo að stærð þeirra er einkum í huga okkar. Þetta eru viðkvæm hús og biðja um virðingu. Þau segja „við" en ekki „þið", þau segja „samfélag" en ekki „auðræði" - „saga" en ekki „niðurrif". Næst þegar fólk tekur sér egg eða grjót í hönd til að varpa að Alþingishúsinu mætti það hugleiða hvað það táknar að henda slíku í sjálft tákn þingræðis okkar og lýðræðis. Aðrir mættu hugleiða hvers vegna svo er komið. Þau sem mótmæla á Austurvelli - eru þau kannski einmitt að berjast fyrir raunverulegu lýðræði, raunverulegu þingræði? Samhljóða uppgjör Alþingis við Hrunið var í sjálfu sér merkistíðindi en gufuðu einhvern veginn upp jafnharðan í sundurþykkju og togi í allar áttir í senn. Uppgjörið féll í skuggann af þessum gömlu vondu átakastjórnmálum sem við erum öll ósegjanlega þreytt á en komumst ekki út úr. Í stað þess að uppgjörið færi okkur sannleikann, réttlætið og að lokum langþráðar sættir - sem eru forsenda þess að hægt sé að sameinast í þjóðarátaki um endurreisn - gæti landsdómsleiðin leitt til þess að við fáum ekkert af þessu. Og manni leið um stund eins og við hefðum farið einn hringinn enn niður spíralinn. Lýðræði takkÞað er vafamál hvort Alþingi tekst að endurheimta þá virðingu sem það á skilið fyrr en það endurspeglar vilja og samsetningu þjóðarinnar. Eins og er fer því fjarri. Nú fer vægi atkvæðanna eftir búsetu. Sá sem býr á Siglufirði hefur meira að segja um landstjórnina en sú sem býr í Breiðholti. Kjördæmakerfið gerir það að verkum að á Alþingi og í ráðherrastólum situr fólk sem virðist ekki starfa eftir þeirri tilfinningu að það starfi í umboði þjóðarinnar. Það lítur á sig sem erindreka tiltekinna hagsmunahópa - jafnvel nokkurs konar lobbyista - og það lítur á hlutverk sitt á valdastólum fyrst og fremst að sjá til þess að hagsmunum þessara litlu hópa sé ekki ógnað.Borgararnir upplifa fullkomið valdaleysi sitt en aðrir greiðan aðgang að kjötkötlunum. Skeytingarleysið um rétt og rangt og blygðunarlaus fyrirgreiðslan sem fylgir umboðslausum völdum lýsir sér á ýmsan máta. Samhliða ranglátu kjördæmakerfi hefur hér þróast ótrúlegt fyrirgreiðslukerfi í bönkunum við útvalda, og sér ekki fyrir endann á því. Og munum: þetta snýst um kerfi en ekki fólk og við eigum að brjóta niður kerfi en ekki fólk.Stundum leka fréttir frá heiðvirðu fólki innan úr kerfinu: Smábátaútgerðin Nóna, sem gerir út tvo báta og „á" kvóta upp á 2 milljarða, fékk afskrifaða 2,6 milljarða króna hjá Landsbankanum, sem að sjálfsögðu varðist allra fregna af málinu. Þetta fyrirtæki er í eigu sömu manna og eiga stórútgerðina Skinney-Þinganes og einhvern veginn hefur þessari smábátaútgerð tekist að steypa sér í skuldir upp á 5,3 milljarða króna árið 2008. Þar hefur verið glatt á hjalla. Samkvæmt fréttum voru þessar afskriftir svo færðar til bókar sem hluti af verulegum hagnaði Skinneyjar-Þinganess á síðasta ári. Misheppnað þjóðfélagÁ meðan stendur fólk í röðum og biður um mat. Það kann að vera að einhverjir í þeim röðum hafi hagað sér óskynsamlega í fjármálum - til dæmis verið svo fávísir að fara að ráðum bankanna um fjármögnun húsnæðiskaupa sinna. Aðrir kunna að hafa verið enn glannalegri og gert áætlanir sem miðuðust við jafn ótraustar forsendur og gengi krónunnar eða jafnvel áframhaldandi vinnu. Það er eflaust margt í mörgu en hitt er aftur á móti annað mál, að þjóðfélag sem líður það að fólk þurfi að standa í röðum og biðja um mat er í grundvallaratriðum misheppnað þjóðfélag.Það er einn mælikvarði á siðað samfélag að fólk sem illa er komið fyrir vegna fjárhagsörðugleika þurfi ekki að niðurlægja sig til að brauðfæða sig og sína. Svona biðraðir eftir mat eiga ekki að sjást. Það hlýtur að vera verkefni núverandi ríkisstjórnar að skilgreina nú loksins almennilega hvað þarf til lágmarksframfærslu fjölskyldu hér og sjá til þess í kjölfarið að enginn sé hér undir fátæktarmörkum.Því eins og góður maður sagði - og dæmið um afskriftirnar á skuldum kvótamillanna sýnir: nógir eru andskotans peningarnir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Alþingishúsið og dómkirkjan við Austurvöll eru ekki kuldalegar og yfirlætisfullar byggingar eins og fylltu Borgartúnið í Bólunni. Þær spjátra sig ekki. Þær segja ekki: Sjáið stærðina, sjáið valdið, auðinn, ósnertanleikann - hér uppi erum við, þarna niðri eruð þið. Þetta eru gömul hús; stór þegar þau voru reist en með stækkandi bæ hafa þau minnkað svo að stærð þeirra er einkum í huga okkar. Þetta eru viðkvæm hús og biðja um virðingu. Þau segja „við" en ekki „þið", þau segja „samfélag" en ekki „auðræði" - „saga" en ekki „niðurrif". Næst þegar fólk tekur sér egg eða grjót í hönd til að varpa að Alþingishúsinu mætti það hugleiða hvað það táknar að henda slíku í sjálft tákn þingræðis okkar og lýðræðis. Aðrir mættu hugleiða hvers vegna svo er komið. Þau sem mótmæla á Austurvelli - eru þau kannski einmitt að berjast fyrir raunverulegu lýðræði, raunverulegu þingræði? Samhljóða uppgjör Alþingis við Hrunið var í sjálfu sér merkistíðindi en gufuðu einhvern veginn upp jafnharðan í sundurþykkju og togi í allar áttir í senn. Uppgjörið féll í skuggann af þessum gömlu vondu átakastjórnmálum sem við erum öll ósegjanlega þreytt á en komumst ekki út úr. Í stað þess að uppgjörið færi okkur sannleikann, réttlætið og að lokum langþráðar sættir - sem eru forsenda þess að hægt sé að sameinast í þjóðarátaki um endurreisn - gæti landsdómsleiðin leitt til þess að við fáum ekkert af þessu. Og manni leið um stund eins og við hefðum farið einn hringinn enn niður spíralinn. Lýðræði takkÞað er vafamál hvort Alþingi tekst að endurheimta þá virðingu sem það á skilið fyrr en það endurspeglar vilja og samsetningu þjóðarinnar. Eins og er fer því fjarri. Nú fer vægi atkvæðanna eftir búsetu. Sá sem býr á Siglufirði hefur meira að segja um landstjórnina en sú sem býr í Breiðholti. Kjördæmakerfið gerir það að verkum að á Alþingi og í ráðherrastólum situr fólk sem virðist ekki starfa eftir þeirri tilfinningu að það starfi í umboði þjóðarinnar. Það lítur á sig sem erindreka tiltekinna hagsmunahópa - jafnvel nokkurs konar lobbyista - og það lítur á hlutverk sitt á valdastólum fyrst og fremst að sjá til þess að hagsmunum þessara litlu hópa sé ekki ógnað.Borgararnir upplifa fullkomið valdaleysi sitt en aðrir greiðan aðgang að kjötkötlunum. Skeytingarleysið um rétt og rangt og blygðunarlaus fyrirgreiðslan sem fylgir umboðslausum völdum lýsir sér á ýmsan máta. Samhliða ranglátu kjördæmakerfi hefur hér þróast ótrúlegt fyrirgreiðslukerfi í bönkunum við útvalda, og sér ekki fyrir endann á því. Og munum: þetta snýst um kerfi en ekki fólk og við eigum að brjóta niður kerfi en ekki fólk.Stundum leka fréttir frá heiðvirðu fólki innan úr kerfinu: Smábátaútgerðin Nóna, sem gerir út tvo báta og „á" kvóta upp á 2 milljarða, fékk afskrifaða 2,6 milljarða króna hjá Landsbankanum, sem að sjálfsögðu varðist allra fregna af málinu. Þetta fyrirtæki er í eigu sömu manna og eiga stórútgerðina Skinney-Þinganes og einhvern veginn hefur þessari smábátaútgerð tekist að steypa sér í skuldir upp á 5,3 milljarða króna árið 2008. Þar hefur verið glatt á hjalla. Samkvæmt fréttum voru þessar afskriftir svo færðar til bókar sem hluti af verulegum hagnaði Skinneyjar-Þinganess á síðasta ári. Misheppnað þjóðfélagÁ meðan stendur fólk í röðum og biður um mat. Það kann að vera að einhverjir í þeim röðum hafi hagað sér óskynsamlega í fjármálum - til dæmis verið svo fávísir að fara að ráðum bankanna um fjármögnun húsnæðiskaupa sinna. Aðrir kunna að hafa verið enn glannalegri og gert áætlanir sem miðuðust við jafn ótraustar forsendur og gengi krónunnar eða jafnvel áframhaldandi vinnu. Það er eflaust margt í mörgu en hitt er aftur á móti annað mál, að þjóðfélag sem líður það að fólk þurfi að standa í röðum og biðja um mat er í grundvallaratriðum misheppnað þjóðfélag.Það er einn mælikvarði á siðað samfélag að fólk sem illa er komið fyrir vegna fjárhagsörðugleika þurfi ekki að niðurlægja sig til að brauðfæða sig og sína. Svona biðraðir eftir mat eiga ekki að sjást. Það hlýtur að vera verkefni núverandi ríkisstjórnar að skilgreina nú loksins almennilega hvað þarf til lágmarksframfærslu fjölskyldu hér og sjá til þess í kjölfarið að enginn sé hér undir fátæktarmörkum.Því eins og góður maður sagði - og dæmið um afskriftirnar á skuldum kvótamillanna sýnir: nógir eru andskotans peningarnir.