Fastir pennar

Vekjum kosningabaráttuna

Nú eru innan við tvær vikur þar til kosið verður til sveitar-stjórna. Það hljómar raunar eins og það geti ekki verið satt miðað við það hversu lítið sveitarstjórnarmál eru til umræðu í samfélaginu.

Í langstærsta sveitarfélagi landsins er staða kosningabaráttunnar líkari því að nokkrir mánuðir væru til kosninga en fáeinir dagar.

Eftirspurnin eftir stjórnmálum og stjórnmálafólki hefur vissulega verið með eindæmum lítil undanfarin misseri og tiltrú almennings til pólitíkusa er líklega í sögulegu lágmarki.

Við þessar aðstæður myndast kjörlendi grínframboðs, Besta flokksins í Reykjavík sem einnig hefur getið af sér afkvæmið Næstbesta flokkinn í nágrannabænum Kópavogi.

Svo virðist sem borgarfulltrúar og aðrir þeir sem í framboði eru til borgarstjórnar af alvöru hafi koðnað niður í aðstæðunum, lagst í vonleysi og talið að best væri að bregðast við lítilli eftirspurn almennings og háðsglósum Besta flokksins með því að láta sem minnst á sér kræla fremur en að reyna að hrista af sér slyðruorðið, stíga fram og kynna málefni sín með reisn.

Vel heppnuð grínframboð geta verið sem hressandi vindar í alvöru kosningabaráttu. Það er enda yfirleitt tilgangur grínframboða sem vanalega stefna alls ekki að því að ná kjöri. Í svo dauflegri kosningabaráttu og verið hefur hingað til í borginni snýst þó grínið í andhverfu sína. Samkvæmt skoðanakönnunum nær Besti flokkurinn ekki bara inn manni heldur fleiri mönnum. Fari fram sem horfir er líklegt að Besti flokkurinn verði þannig í oddaaðstöðu í borgarstjórn á komandi kjörtímabili.

Sveitarstjórnarmál snúast um börnin í samfélaginu, leikskóla og grunnskóla og stóran hluta velferðarkerfisins, þau snúast um skipulagsmál og samgöngur og fjöldamarga aðra hluti sem snerta daglegt líf fólks. Sveitarstjórnarmál eru því alls ekkert grín. Besti flokkurinn grínast þó enn og hefur ekki stefnu í neinum málum sem eitthvað vega. Stefna flokksins snýst enn um ísbirni í Húsdýragarðinn, ókeypis handklæði í sundlaugarnar og fleira í þeim dúr sem væri auðvitað í góðu lagi ef raunveruleg kosningabarátta færi einnig fram.

Það eru einungis tólf dagar til stefnu þannig að nú fer hver að verða síðastur að koma fram úr fylgsni sínu. Þeir sem taka þátt í sveitarstjórnarmálum af alvöru verða að standa á torgum og útskýra fyrir okkur kjósendum fyrir hvað þeir standa.

Sitjandi meirihluti verður af sannfæringu að segja okkur hvers vegna við ættum að fela þeim áframhaldandi stjórn borgarinnar og minnihlutinn að sama skapi að færa fram gild rök fyrir því hvers vegna skipta á um stjórn í borginni.

Það gengur ekki að koðna niður undan því að Jón Gnarr og félagar syngi hress lög um að stjórnamálamenn séu fúlir og leiðinlegir sérhagsmunapotarar. Ef þessir síðustu dagar verða ekki gjörnýttir af frambjóðendum er hætt við að ringulreiðin á næsta kjörtímabili verði verri en nokkru sinni fyrr. Og það er vissulega versti kosturinn.






×