Körfubolti

NBA: Orlando komið í 2-0 en San Antonio jafnaði metin á móti Dallas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki svekktur í leikslok í nótt.
Dirk Nowitzki svekktur í leikslok í nótt. Mynd/AP
Tveir leikir fóru fram í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Orlando Magic komst í 2-0 á móti Charlotte Bobcats en San Antonio Spurs jafnaði metin í 1-1 á móti Dallas Mavericks.

Vince Carter var með 19 stig og Dwight Howard bætti við 15 stigum þegar Orlando Magic vann 92-77 sigur á Charlotte Bobcats á heimavelli. Carter og Howard sameinuðust um 21 stig í seinni hálfleiknum. Stephen Jackson var með 27 stig fyrir Charlotte og Gerald Wallace skoraði 15 stig.

Richard Jefferson bætti fyrir skelfilegan fyrsta leik með því að skora 19 stig þegar San Antonio Spurs vann 102-88 sigur á Dallas Mavericks og jafnaði því einvígið eftir fyrstu tvo leikina í Dallas.

Dallas-maðurinn Dirk Nowitzki fór frá því að hitta úr nánast öllu í fyrsta leiknum (12 af 14) í það að hitta nánast ekki neitt í nótt (9 af 24). Nowitzki klikkaði á 6 af fyrstu 7 skotum sínum en endaði með 24 stig og 10 fráköst.

Tim Duncan var með 25 stig og 17 fráköst fyrir Spurs og Manu Ginobili skoraði 23 stig. Tony Parker kom síðan með 16 stig og 8 stoðsendingar inn af bekknum. Jason Terry kom af bekknum og skoraði 27 stig fyrir Dallas.



Úrslitin í nótt, staðan í einvígunum og næsti leikur:


Orlando Magic-Charlotte Bobcats 92-77

(Staðan er 2-0 fyrir Orlando, næsti leikur í Charlotte á laugardag)

Dallas Mavericks-San Antonio Spurs 88-102

(Staðan er 1-1, næsti leikur í San Antonio á morgun)



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×