Tíska og hönnun

Flíkur innblásnar af gosinu

Ásta Kristjánsdóttir, annar eigenda E-label, segir nýju línuna væntanlega í verslanir eftir mánuð.Fréttablaðið/valli
Ásta Kristjánsdóttir, annar eigenda E-label, segir nýju línuna væntanlega í verslanir eftir mánuð.Fréttablaðið/valli
„Þetta er allt í vinnslu núna en vonandi verða flíkurnar komnar í verslanir eftir rúman mánuð. Þetta var upprunalega hugmynd hönnuðarins Hörpu Einarsdóttur, sem hefur verið að hanna fyrir okkur upp á síðkastið. Hún heillaðist af þessum jarðhræringum og varð fyrir miklum áhrifum eftir að hafa skoðað gosið,“ segir Ásta Kristjánsdóttir, annar eigenda E-label, en verið er að hanna sérstakar flíkur fyrir merkið sem innblásnar eru af gosinu. Goslínan nýja mun innihalda bæði kjóla og boli og má búast við allt að fimm mismunandi stílum innan hennar.

Auk Hörpu Einarsdóttur hafa hönnuðirnir Eygló Lárusdóttir, Sara María Júlíudóttir og Erna Bergmann gengið til liðs við E-label. „Við fengum fleiri hönnuði til liðs við okkur í haust því við vildum fá aukinn ferskleika inn í hönnunina. Hugmyndafræðin að baki E-label verður þó enn sú sama og vinna hönnuðirnir innan þess ramma.“ Ásta segir gott að geta nýtt gosið til að koma hönnun E-label á framfæri í erlendum fjölmiðlum og segir fólk eiga að grípa tækifærin þegar þau gefast. „Við gátum tengt hönnun okkar við gosið í Eyjafjallajökli og með því vakið athygli á því sem við erum að gera.

BBC fjallaði til dæmis um þessa línu síðastliðinn laugardag. Það er mjög erfitt og dýrmætt að fá ókeypis umfjöllun erlendis og því verður maður að grípa tækifærið þegar það gefst,“ segir Ásta. -sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×