Gagnrýni

Buddy Holly í Austurbæ

Kjartan Guðmundsson skrifar
Frábær tónlist Buddys Holly hljómar einkar vel í Austurbæ. Mikið mæðir á Ingó í titilhlutverkinu.
Frábær tónlist Buddys Holly hljómar einkar vel í Austurbæ. Mikið mæðir á Ingó í titilhlutverkinu.

Leikhús ***

Buddy Holly Söngleikurinn

Leikstjóri: Gunnar Helgason

Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson Aðalhlutverk: Ingólfur Þórarinsson, Felix Bergsson, Jóhann G. Jóhannsson, Björgvin Franz Gíslason og fleiri.

Beint frá Lubbock, Texas

Þeim sem hafa í hyggju að skemmta sér á söngleiknum um Buddy Holly, sem frumsýndur var í nýendurbættu Austurbæjarbíói á fimmtudagskvöld, er ráðlagt að hafa í huga að hér er fráleitt á ferð forvitnileg innsýn í líf eins áhrifamesta popptónlistarmanns sögunnar og samferðafólks hans; persónusköpun er nánast engin. Því síður er um að ræða forvitnilegt yfirlit yfir sokkabandsár rokksins, því sögulegri nákvæmni er heldur ekki fyrir að fara í sýningunni. Raunar byggja öll samtöl öðru fremur á einfeldningslegu gríni (kandíflossið sem boðið var upp á í sjoppunni er líklega ágætis vísbending um raunverulegan markhóp söngleiksins) sem náði sér nokkuð á strik eftir hlé en féll ítrekað kylliflatt framan af, þrátt fyrir venjubundinn góðvilja frumsýningargesta.

Bæði lærðir og leikir spreyta sig á leiklistinni og er frammistaðan misjöfn eftir því. Sumir eru fínir meðan aðrir jaðra við að vera pínlega slakir. Vafalaust má skrifa ýmislegt á frumsýningarsviðsskrekk hjá þeim síðarnefndu og sýningin mun óhjákvæmilega slípast til.

En góðu heilli eru leikatriðin stutt, þjóna einungis því hlutverki að ramma inn tónlistarsenurnar, og er yfir fáu að kvarta í þeim efnum. Stórkostlegur efniviðurinn hljómar einkar vel í Austurbæ og hljómsveitin fer á kostum. Mikið mæðir á Ingó í titilhlutverkinu og kemst hann vel frá því sönglega séð, utan lagsins True Love Ways (Mín ást er sönn í látlausri þýðingu Davíðs Þórs Jónssonar), sem popparinn flutti reyndar í miðju hóstakasti sem hann glímdi við um hríð eftir hlé.

Þá er vert að minnast á þátt Sigurjóns Brink sem hélt sig baksviðs lengi vel en átti kómíska innkomu í lokin sem Ritchie Valens. Engu skiptir þótt Sigurjón hafi í raun verið mun líkari Ricky Martin en Valens, Felix Bergsson vanti smá hár og þó nokkur kíló upp í Big Bopper og Ingó einhverja sentimetra í Buddy. Mest er um vert að allir standa þeir sig vel í söngnum, eins og raunar flestir aðrir.

Þessi söngleikur mun svínvirka þegar rútufyllin af börnum og unglingum og miðnætursýningar með tilheyrandi stuði detta inn. Þá munu unglingsstúlkur á öllum aldri halda áfram að flykkjast inn á vefsíðuna Ingó.is. Og verða mögulega fyrir vonbrigðum þegar þær uppgötva að þar er á ferð heimasíða Ingólfs Margeirssonar.

Niðurstaða: Frábær músík en brokkgengt grín inni á milli. Ingó kemst vel frá sínu hlutverki, sérstaklega söngnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×