Söguleg ráðstefna 1. desember 2009 06:00 Umhverfisráðstefnan sem haldin verður í Kaupmannahöfn 8.-15. desember gæti orðið ein mikilvægasta alþjóðaráðstefna seinni tíma. Á hinn bóginn gæti hún einnig orðið enn ein misheppnuð tilraun til að taka á vanda sem ríki heimsins hafa ekki ráðið við til þessa: Vanda hnattrænnar mengunar. Hnattræn mengun af manna völdum er glænýtt fyrirbæri í mannkynssögunni; afleiðing af iðnvæðingu og fólksfjölgun undanfarinna áratuga. Hvort tveggja kallar á aukna orkunýtingu sem bæði gengur á auðlindir heimsins og skapar hnattræna mengun. Mengun af manna völdum var einungis staðbundin fram á 19. öld. Staðbundin mengun verður af völdum efna sem fara út í andrúmsloftið og geta valdið mengun í nánasta umhverfi ef styrkurinn fer yfir ákveðin mörk. Þessi efni geta haft neikvæð áhrif á lífríki og heilsu manna í nánasta umhverfi. Hnattræn mengun er annars eðlis. Hún orsakast af því að mikið magn tiltekinna efna, svokallaðra gróðurhúsalofttegunda, safnast fyrir í andrúmsloftinu og getur aukinn styrkur þessara lofttegunda í andrúmslofti leitt til loftslagsbreytinga. Ekki skiptir máli hvar á hnettinum uppsprettur slíkrar losunar eru, heldur skiptir máli hvert er heildarmagnið sem er losað út í andrúmsloftið á allri jörðinni. Aukin hitnun andrúmsloftsins undanfarna öld stafar m.a. af þessum ástæðum og getur haft varhugaverðar afleiðingar. Vistkerfi jarðarinnar er háð sífelldum breytingum en miklar hnattrænar breytingar á skömmum tíma munu raska lífskjörum manna og fleiri lífvera á hátt sem erfitt er að spá fyrir um. Það kemur illa við marga þegar bent er á neikvæðar afleiðingar af þeirri auknu velsæld sem iðnvæðingin hefur skapað fyrir stóran hluta mannkyns og flestar þjóðir dreymir um að öðlast. Jafnvel hefur verið talað um dómadagsspár í því samhengi eða þá að gefið er í skyn að náttúrufræðingar um víða veröld séu í alheimssamsæri gegn blásaklausum orkufyrirtækjum. Þar að auki ganga hugmyndir um minni orkunýtingu gegn grunnhugmynd kapítalismans um ótakmarkaða þenslu. Aukin orkunýting, að verulegu leyti ósjálfbær, var grundvallarþáttur í hagvexti 20. aldar. Þetta er ástæðan fyrir því að Bandaríkjastjórn kom í veg fyrir heimssamkomulag um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í Kyoto 1997. Þar var á ferð sendinefnd mönnuð frjálslyndum demókrötum og leidd af sjálfum Al Gore. Vilji bandaríska öldungaráðsins var hins vegar skýr og setti ríkisstjórn Bandaríkjanna óyfirstíganlegar skorður sem snerust eingöngu um efnahagslega hagsmuni. Kostnaður við að ná kjöri á Bandaríkjaþing er svo mikill að orkufyrirtækin hafa öflugt tak á þingmönnum og virðist ekkert vera að draga úr því. Þess vegna hafa væntingar til þess að Bandaríkjaforseti muni standa að samkomulagi sem mark er á takandi verið frekar litlar. Á hinn bóginn kemur þægilega á óvart að leiðtogar Kína hafa sýnt vilja til að draga úr orkuneyslu en til þessa hefur stefna þeirra verið sú að þetta sé fyrst og fremst vandamál sem ríkustu þjóðir heims þurfi að taka á. Yfirlýsing forseta Bandaríkjanna og Kína í síðasta mánuði um að þeir vilji bindandi samkomulag um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda gefur góð fyrirheit, en rétt er þó að gera þann fyrirvara að þeir voru fáorðir um það hversu langt þurfti að ganga. Forsætisráðherra Danmerkur er hins vegar ómyrkur í máli og talar um 80% niðurskurð í losun gróðurhúslofttegunda fyrir 2050. Það verður enda að teljast lágmark ef meiningin er að takast á við vandamálið af alvöru. Ef einhver ástæða er til þess að binda vonir við fundinn í Kaupmannahöfn felst hún í því að æ fleiri gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem felst í núverandi nýtingu á takmörkuðum gas- og olíulindum jarðar. Í fyrsta lagi er það augljóst að rányrkja á takmörkuðum auðlindum gengur ekki til lengdar; það er einungis spurning um tíma hvenær þarf að hugsa málin upp á nýtt og í hlut hvaða kynslóðar það kemur. Í öðru lagi þá er fyrirsjáanlegur kostnaður við að viðhalda núverandi orkunýtingu næstu áratugina gríðarlegur og jafnast á við kostnaðinn af því að draga úr orkunýtingu og eyða frekar peningum í að þróa vistvænni orkugjafa. Það er einungis tímaspursmál hvenær þarf að taka á þeim vandamálum sem orkufrekur iðnaður hefur skapað. Þarf allt að vera komið í þrot áður en leitað verður annarra lausna? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Umhverfisráðstefnan sem haldin verður í Kaupmannahöfn 8.-15. desember gæti orðið ein mikilvægasta alþjóðaráðstefna seinni tíma. Á hinn bóginn gæti hún einnig orðið enn ein misheppnuð tilraun til að taka á vanda sem ríki heimsins hafa ekki ráðið við til þessa: Vanda hnattrænnar mengunar. Hnattræn mengun af manna völdum er glænýtt fyrirbæri í mannkynssögunni; afleiðing af iðnvæðingu og fólksfjölgun undanfarinna áratuga. Hvort tveggja kallar á aukna orkunýtingu sem bæði gengur á auðlindir heimsins og skapar hnattræna mengun. Mengun af manna völdum var einungis staðbundin fram á 19. öld. Staðbundin mengun verður af völdum efna sem fara út í andrúmsloftið og geta valdið mengun í nánasta umhverfi ef styrkurinn fer yfir ákveðin mörk. Þessi efni geta haft neikvæð áhrif á lífríki og heilsu manna í nánasta umhverfi. Hnattræn mengun er annars eðlis. Hún orsakast af því að mikið magn tiltekinna efna, svokallaðra gróðurhúsalofttegunda, safnast fyrir í andrúmsloftinu og getur aukinn styrkur þessara lofttegunda í andrúmslofti leitt til loftslagsbreytinga. Ekki skiptir máli hvar á hnettinum uppsprettur slíkrar losunar eru, heldur skiptir máli hvert er heildarmagnið sem er losað út í andrúmsloftið á allri jörðinni. Aukin hitnun andrúmsloftsins undanfarna öld stafar m.a. af þessum ástæðum og getur haft varhugaverðar afleiðingar. Vistkerfi jarðarinnar er háð sífelldum breytingum en miklar hnattrænar breytingar á skömmum tíma munu raska lífskjörum manna og fleiri lífvera á hátt sem erfitt er að spá fyrir um. Það kemur illa við marga þegar bent er á neikvæðar afleiðingar af þeirri auknu velsæld sem iðnvæðingin hefur skapað fyrir stóran hluta mannkyns og flestar þjóðir dreymir um að öðlast. Jafnvel hefur verið talað um dómadagsspár í því samhengi eða þá að gefið er í skyn að náttúrufræðingar um víða veröld séu í alheimssamsæri gegn blásaklausum orkufyrirtækjum. Þar að auki ganga hugmyndir um minni orkunýtingu gegn grunnhugmynd kapítalismans um ótakmarkaða þenslu. Aukin orkunýting, að verulegu leyti ósjálfbær, var grundvallarþáttur í hagvexti 20. aldar. Þetta er ástæðan fyrir því að Bandaríkjastjórn kom í veg fyrir heimssamkomulag um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í Kyoto 1997. Þar var á ferð sendinefnd mönnuð frjálslyndum demókrötum og leidd af sjálfum Al Gore. Vilji bandaríska öldungaráðsins var hins vegar skýr og setti ríkisstjórn Bandaríkjanna óyfirstíganlegar skorður sem snerust eingöngu um efnahagslega hagsmuni. Kostnaður við að ná kjöri á Bandaríkjaþing er svo mikill að orkufyrirtækin hafa öflugt tak á þingmönnum og virðist ekkert vera að draga úr því. Þess vegna hafa væntingar til þess að Bandaríkjaforseti muni standa að samkomulagi sem mark er á takandi verið frekar litlar. Á hinn bóginn kemur þægilega á óvart að leiðtogar Kína hafa sýnt vilja til að draga úr orkuneyslu en til þessa hefur stefna þeirra verið sú að þetta sé fyrst og fremst vandamál sem ríkustu þjóðir heims þurfi að taka á. Yfirlýsing forseta Bandaríkjanna og Kína í síðasta mánuði um að þeir vilji bindandi samkomulag um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda gefur góð fyrirheit, en rétt er þó að gera þann fyrirvara að þeir voru fáorðir um það hversu langt þurfti að ganga. Forsætisráðherra Danmerkur er hins vegar ómyrkur í máli og talar um 80% niðurskurð í losun gróðurhúslofttegunda fyrir 2050. Það verður enda að teljast lágmark ef meiningin er að takast á við vandamálið af alvöru. Ef einhver ástæða er til þess að binda vonir við fundinn í Kaupmannahöfn felst hún í því að æ fleiri gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem felst í núverandi nýtingu á takmörkuðum gas- og olíulindum jarðar. Í fyrsta lagi er það augljóst að rányrkja á takmörkuðum auðlindum gengur ekki til lengdar; það er einungis spurning um tíma hvenær þarf að hugsa málin upp á nýtt og í hlut hvaða kynslóðar það kemur. Í öðru lagi þá er fyrirsjáanlegur kostnaður við að viðhalda núverandi orkunýtingu næstu áratugina gríðarlegur og jafnast á við kostnaðinn af því að draga úr orkunýtingu og eyða frekar peningum í að þróa vistvænni orkugjafa. Það er einungis tímaspursmál hvenær þarf að taka á þeim vandamálum sem orkufrekur iðnaður hefur skapað. Þarf allt að vera komið í þrot áður en leitað verður annarra lausna?