Körfubolti

Boston og Cleveland töpuðu óvænt - Lakers á toppinn

Wilson Chandler setti persónulegt met með 31 stigi gegn Boston
Wilson Chandler setti persónulegt met með 31 stigi gegn Boston AP

Óvænt úrslit urðu í NBA deildinni í nótt þegar New York lagði Boston 100-88 á heimavelli sínum. Á sama tíma vann Lakers sigur á Portland 100-86 á heimavelli og hefur nú besta árangurinn í deildinni.

Wilson Chandler skoraði 31 stig fyrir New York í sigrinum á Boston og Paul Pierce var með 31 fyrir meistarana, en þetta var í fyrsta sinn síðan 2005 sem New York vinnur leik liðanna í Madison Square Garden.

Boston hefur gengið afleitlega í síðustu leikjum og missti toppsæti deildarinnar í hendur erkifjenda sinna í LA Lakers í nótt.

Lakers vann Portland sem fyrr segir 100-86 með 26 stigum frá Kobe Bryant, en LaMarcus Aldridge skoraði 22 stig og hirti 11 fráköst fyrir Portland, sem lék án síns besta manns Brandon Roy.

Cleveland mátti sætta sig við tap fyrir arfaslöku liði Washington 80-77. LeBron James skoraði 30 stig og gaf 10 stoðsendingar hjá Cleveland en Antawn Jamison skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst fyrir Washington.

Toronto lagði Orlando 108-102 þrátt fyrir að Dwight Howard skoraði 39 stig fyrir Orlando. Anthony Parker skoraði 26 stig fyrir Toronto.

Detroit vann sjöunda leikinn í röð með naumum útisigri á LA Clippers 88-87. Rodney Stuckey skoraði 34 stig fyrir Detroit en Eric Gordon 31 fyrir heimamenn.

Loks vann Memphis langþráðan sigur á Dallas 102-82, en Memphis hafði tapað 13 leikjum í röð fyrir Dallas.

Staðan í deildinni



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×