Körfubolti

Orlando komið aftur yfir gegn Cleveland

AP

Orlando Magic náði á ný forystu í einvíginu við Cleveland í úrslitarimmu Austurdeildarinnar í NBA í nótt með 99-89 sigri í þriðja leik liðanna.

Leikurinn var fast spilaður og fóru liðin alls 85 sinnum á vítalínuna, enginn oftar en LeBron James sem skoraði 18 af 41 stigi sínu á vítalínunni.

Mo Williams skoraði 15 stig og Delonte West 12 fyrir Cleveland, en að öðru leyti var sóknarleikur Cleveland frekar staður og vörnin hefur enn ekki fundið svar við Orlando liðinu.

Dwight Howard skoraði 14 af 24 stigum sínum á vítalínunni fyrir Orlando og hirti 9 fráköst, en hann spilaði aðeins 28 af 48 leikmínútum vegna villuvandræða.

Rafer Alston skoraði 18 stig, Mickael Pietrus 16, Rashard Lewis 15 og Hedo Turkoglu var með 13 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar.

Orlando var yfir nánast allan tímann og vann verðskuldaðan sigur. Liðið hefur enda verið betri aðilinn í þessu einvígi heilt yfir - þvert á spár manna.

Næsti leikur fer líka fram í Orlando annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Í nótt eigast við Denver og Lakers klukkan eitt - líka í beinni á Sportinu.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×