Skrifað í genin Jón Kaldal skrifar 11. febrúar 2009 11:25 „Verkamannaflokkurinn er ákaflega afslappaður yfir því að fólk verði viðbjóðslega ríkt." Þessi frægu orð Peters Mandelson, eins helsta hugmyndafræðings breska Verkamannaflokksins og ráðgjafa Tony Blair, féllu 1998, ári eftir að flokkur hans tók við völdum í Bretlandi. Þau þóttu, eins og gefur að skilja, marka mikil tímamót fyrir flokk sem fyrir daga Blairs hafði kennt sig við sósíalisma. Stjórn Verkamannaflokksins sat ekki við orðin tóm. London varð á undraskömmum tíma höfuðborg milljarðamæringa hvaðanæva að úr heiminum vegna mjög hagstæðrar skattalöggjafar Bretlands. Hérna megin við hafið var svipað upp á teningnum. Hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fylgdu í grófum dráttum línu bresku jafnaðarmannanna. Skattar voru lækkaðir, umfram allt og mjög hraustlega af fjármagnstekjum og á fyrirtæki. Hugmyndafræðin var sú sama. Minni álögur á fjármagn og rekstur áttu að skapa aukin umsvif og þar með meiri velsæld fyrir allt samfélagið. Lengi vel sýndist þetta módel ætla að virka með ágætum. Á sama tíma og ný og áður óþekkt stétt ofsaríkra Íslendinga reis upp, hækkuðu ráðstöfunartekjur þeirra sem höfðu lægstu launin. Frjálshyggjan, höfuðkennisetning þess kerfis, virtist vera hinn útvaldi sigurvegari. En eins og svo oft áður varð sama afl og keyrði kerfið áfram því að falli á endanum. Eyðingarmáttur græðginnar reyndist sterkari sköpunarmætti hennar. Margir þeirra sem voru við topp tekjupíramídans virtust aldrei fá nóg, jafnvel ekki þótt þeir ættu meira en hægt er að eyða á heilli ævi. Hvað er það sem veldur slíku háttalagi? Mannlegt eðli, er svar þeirra sem hafa unnið með og rannsakað kenningar enska náttúrufræðingsins Charles Darwin. Á morgun eru tvö hundruð ár liðin frá fæðingu Darwins og á þessu ári eru 150 ár frá útgáfu lykilverks hans, Uppruna tegundanna. Í grein, sem birtist í Economist í desember í tilefni þessara tímamóta, kemur fram að rannsóknir og tilraunir með kenningar Darwins benda eindregið til þess að afstaða fólks til peninga og annarra verðmæta sé ekki mótuð af siðferði, menntun, trú eða uppeldi, heldur að stærstum hluta skrifuð í genin. Keppnin um verðmæti, og þá stöðu sem þeim fylgir, er svo rík í mannskepnunni að fólk heldur áfram kapphlaupinu jafnvel þó það hafi nóg af öllu. Vissulega sýna rannsóknir að ríkidæmi fylgir hamingja. Það merkilega er þó að fólk er ekki hamingjusamara að meðaltali í ríkum löndum en fátækum. Ástæðan er að auður og fátækt eru að vissu leyti afstæð fyrirbrigði. Mælistikan er breytileg milli samfélaga. Fólk miðar sig við næsta nágranna, eða þá sem það les um í blöðum og sér í sjónvarpi. Þannig getur sá sem var fyllilega sáttur við gamla bílinn sinn skyndilega fyllst megnri óhamingju þegar á hlaði næsta húss birtist splunkunýr og gljáfægður jeppi, svo hlutirnir séu dregnir upp í mjög einfaldaðri mynd. Látalæti hinna ofsaríku, sem fljúga til dæmis í einkaþotum og aka um í glæsibifreiðum, geta haft svipuð áhrif. Ef eitthvað er að marka kenningar Darwins er óhóflegur áberandi íburður ávísun á almenna óánægju meðal hinna sem minna hafa, þótt þeir hafi meira en nóg. Maðurinn er ekki fullkomnari en þetta. Viðbrögðin eru genetísk. Og þetta leiðir okkur aftur að orðum Mandelsons um hina "viðbjóðslega" ríku. Því samkvæmt stjórnmálaskóla Darwins geta þeir sem móta samfélagsgerðina ekki leyft sér að láta hlutina þróast á þann veg. Ákveðinn jöfnuður er hagsmunir heildarinnar. Hvar jafnvægið liggur er hin pólitíska kúnst sem verður seint fullmótuð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
„Verkamannaflokkurinn er ákaflega afslappaður yfir því að fólk verði viðbjóðslega ríkt." Þessi frægu orð Peters Mandelson, eins helsta hugmyndafræðings breska Verkamannaflokksins og ráðgjafa Tony Blair, féllu 1998, ári eftir að flokkur hans tók við völdum í Bretlandi. Þau þóttu, eins og gefur að skilja, marka mikil tímamót fyrir flokk sem fyrir daga Blairs hafði kennt sig við sósíalisma. Stjórn Verkamannaflokksins sat ekki við orðin tóm. London varð á undraskömmum tíma höfuðborg milljarðamæringa hvaðanæva að úr heiminum vegna mjög hagstæðrar skattalöggjafar Bretlands. Hérna megin við hafið var svipað upp á teningnum. Hægri stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fylgdu í grófum dráttum línu bresku jafnaðarmannanna. Skattar voru lækkaðir, umfram allt og mjög hraustlega af fjármagnstekjum og á fyrirtæki. Hugmyndafræðin var sú sama. Minni álögur á fjármagn og rekstur áttu að skapa aukin umsvif og þar með meiri velsæld fyrir allt samfélagið. Lengi vel sýndist þetta módel ætla að virka með ágætum. Á sama tíma og ný og áður óþekkt stétt ofsaríkra Íslendinga reis upp, hækkuðu ráðstöfunartekjur þeirra sem höfðu lægstu launin. Frjálshyggjan, höfuðkennisetning þess kerfis, virtist vera hinn útvaldi sigurvegari. En eins og svo oft áður varð sama afl og keyrði kerfið áfram því að falli á endanum. Eyðingarmáttur græðginnar reyndist sterkari sköpunarmætti hennar. Margir þeirra sem voru við topp tekjupíramídans virtust aldrei fá nóg, jafnvel ekki þótt þeir ættu meira en hægt er að eyða á heilli ævi. Hvað er það sem veldur slíku háttalagi? Mannlegt eðli, er svar þeirra sem hafa unnið með og rannsakað kenningar enska náttúrufræðingsins Charles Darwin. Á morgun eru tvö hundruð ár liðin frá fæðingu Darwins og á þessu ári eru 150 ár frá útgáfu lykilverks hans, Uppruna tegundanna. Í grein, sem birtist í Economist í desember í tilefni þessara tímamóta, kemur fram að rannsóknir og tilraunir með kenningar Darwins benda eindregið til þess að afstaða fólks til peninga og annarra verðmæta sé ekki mótuð af siðferði, menntun, trú eða uppeldi, heldur að stærstum hluta skrifuð í genin. Keppnin um verðmæti, og þá stöðu sem þeim fylgir, er svo rík í mannskepnunni að fólk heldur áfram kapphlaupinu jafnvel þó það hafi nóg af öllu. Vissulega sýna rannsóknir að ríkidæmi fylgir hamingja. Það merkilega er þó að fólk er ekki hamingjusamara að meðaltali í ríkum löndum en fátækum. Ástæðan er að auður og fátækt eru að vissu leyti afstæð fyrirbrigði. Mælistikan er breytileg milli samfélaga. Fólk miðar sig við næsta nágranna, eða þá sem það les um í blöðum og sér í sjónvarpi. Þannig getur sá sem var fyllilega sáttur við gamla bílinn sinn skyndilega fyllst megnri óhamingju þegar á hlaði næsta húss birtist splunkunýr og gljáfægður jeppi, svo hlutirnir séu dregnir upp í mjög einfaldaðri mynd. Látalæti hinna ofsaríku, sem fljúga til dæmis í einkaþotum og aka um í glæsibifreiðum, geta haft svipuð áhrif. Ef eitthvað er að marka kenningar Darwins er óhóflegur áberandi íburður ávísun á almenna óánægju meðal hinna sem minna hafa, þótt þeir hafi meira en nóg. Maðurinn er ekki fullkomnari en þetta. Viðbrögðin eru genetísk. Og þetta leiðir okkur aftur að orðum Mandelsons um hina "viðbjóðslega" ríku. Því samkvæmt stjórnmálaskóla Darwins geta þeir sem móta samfélagsgerðina ekki leyft sér að láta hlutina þróast á þann veg. Ákveðinn jöfnuður er hagsmunir heildarinnar. Hvar jafnvægið liggur er hin pólitíska kúnst sem verður seint fullmótuð.