Körfubolti

LeBron hélt lífi í Cleveland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James fór mikinn í liði Cleveland í dag.
LeBron James fór mikinn í liði Cleveland í dag. Nordic Photos / Getty Images
LeBron James sá til þess að tímabilinu hjá Cleveland lyki ekki í nótt. Hann átti enn einn stórleikinn er hans menn unnu sigur á Orlando, 112-102, í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt.

Þar með er staðan í rimmu liðanna í úrslitum austurstrandarinnar 3-2 fyrir Orlando sem getur tryggt sér sæti í lokaúrslitunum með sigri á heimavelli annað kvöld.

LeBron náði risastórri þrefaldri tvennu í leiknum - 37 stigum, fjórtán fráköstum og tólf stoðsendingum. Leikmaður hefur ekki náð slíkum tölum í úrslitakeppninni síðan árið 1963 er Oscar Robertson afrekaði það.

Það hefur hins vegar sýnt sig í rimmunni gegn Orlando að það þýðir lítið að treysta eingöngu á LeBron. Mo Williams átti einnig fínan leik og skoraði 24 stig, þar af setti hann niður sex þrista. Zydrunas Ilgauskas var með sextán stig og Delonte West þrettán.

Orlando átti þó sína möguleika í leiknum og náði að jafna metin eftir að hafa lent 22 stigum undir. En Cleveland vann að lokum sigur.

Hedo Turkoglu skoraði 29 stig fyrir Orlando, Dwight Howard skoraði 24 stig og tók tíu fráköst.

Það hefur aðeins gerst átta sinnum síðan 1947 að liði hefur tekist að vinna rimmu í úrslitakeppni eftir að hafa lent 3-1 undir eins og Cleveland nú. En stærsta prófraunin verður í næsta leik enda hefur Cleveland ekki gengið vel á heimavelli Orlando í rimmunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×