Sport

Styrkleikaröðun klár fyrir opna ástralska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Novak Djokovic bar sigur úr býtum í einliðaleik karla í fyrra.
Novak Djokovic bar sigur úr býtum í einliðaleik karla í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Búið er að raða þeim 32 bestu keppendum sem taka þátt í opna ástralska meistaramótinu í tennis í sæti samkvæmt styrkleikaröð.

Raðað er samkvæmt stöðu leikmanna á styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins en þeir sem ekki geta tekið þátt í mótinu er vitanlega ekki raðað í sæti.

Nikolay Davydenko er eini leikmaðurinn úr fremstu röð í einliðaleik karla sem ekki getur spilað á mótinu vegna meiðsla. Maria Sharapova er einnig frá vegna meiðsla í kvennaflokki en hún bar sigur úr býtum á mótinu í fyrra.

Mótið hefst á mánudaginn næstkomandi og eru margir sem veðja á að Skotinn Andy Murray muni ná langt á mótinu en hann hefur verið í góðu formi undanfarið. Hann er í fjórða sæti styrkleikalistans í einliðaleik karla en Spánverjinn Rafael Nadal er efstur.

Í kvennaflokki er Jelena Jankovic frá Serbíu efst og Serena Williams önnur.

Styrkleikaröðunin er til þess gerð að bestu leikmenn mótsins geta ekki mæst í fyrstu umferðum keppninnar. Alls eru 128 keppendur skráðir til leiks og þeim skipt í átta flokka. Keppt er samkvæmt útsláttarfyrirkomulagi og er hver flokkur með sextán keppendur.

Sigurvegarinn úr hverjum flokki kemst svo áfram í fjórðungsúrslit keppninnar. Skipulagið er með þeim hætti að efstu tveir menn á styrkleikalistanum geta ekki mæst nema í sjálfri úrslitaviðureigninni.

Það er þó alls ekki algilt að aðeins þeir sem er raðað í styrkleikasæti komist langt á mótinu en í fyrra komst Frakkinn Jo-Wilfried Tsonga alla leið í úrslitin þó svo að hann hafi fyrirfram ekki verið talinn meðal 32 sterkustu keppenda mótsins. Hann tapaði fyrir Novak Djokovic í úrslitunum. Tsonga er nú í fimmta sæti styrkleikalista mótsins.

Efstu átta keppendur í einliðaleik karla:

1. Rafael Nadal, Spáni

2. Roger Federer, Sviss

3. Novak Djokovic, Serbíu

4. Andy Murray, Bretlandi

5. Jo-Wilfried Tsonga, Frakklandi

6. Gilles Simon, Frakklandi

7. Andy Roddick, Bandaríkjunum

8. Juan Martin del Potro, Argentínu

Efstu átta keppendur í einliðaleik kvenna:

1. Jelena Jankovic, Serbíu

2. Serena Williams, Bandaríkjunum

3. Dinara Safina, Rússlandi

4. Elena Dementieva, Rússlandi

5. Ana Ivanovic, Serbíu

6. Venus Williams, Bandaríkjunum

7. Vera Zvonareva, Rússlandi

8. Svetlana Kuznetsova, Rússlandi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×