Körfubolti

Orlando sló meistarana út

Paul Pierce og Ray Allen hjá Boston eru komnir í sumarfrí
Paul Pierce og Ray Allen hjá Boston eru komnir í sumarfrí AP

Meistaralið Boston Celtics er úr leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar eftir 101-82 tap fyrir Orlando Magic á heimavelli sínum í oddaleik liðanna í nótt.

Orlando hafði örugga forystu nær allan leikinn og er verðskuldað komið í úrslitarimmu Austurdeildar þar sem liðið mætir Cleveland Cavaliers.

Boston hefur spilað án Kevin Garnett í úrslitakeppninni og ljóst var að án hans væri liðið alls ekki eins sterkt og í fyrra þegar það vann fyrsta meistaratitilinn í tvo áratugi.

Menn gleyma því hinsvegar að lið Orlando er líka undirmannað, því leikstjórnandinn Jameer Nelson hefur ekkert leikið með liðinu í nokkra mánuði. Hann var valinn í stjörnuleikinn í febrúar.

"Við trúum því að við getum unni titil og við hættum ekki fyrr en við náum því takmarki," sagði Dwight Howard, leikmaður Orlando.

Hedo Turkoglu var stigahæstur hjá Orlando með 25 stig og 12 stoðsendingar, Rashard Lewis skoraði 19 stig , Mickael Pietrus var frábær af bekknum með 17 stig og Dwight Howard skoraði 12 stig, hirti 16 fráköst og varði 5 skot.

Ray Allen var stigahæstur í slöku liði Boston mðeð 23 stig, en hann var annars afleitur allt þetta einvígi. Paul Pierce skoraði 7 af 16 stigum sínum af vítalínunni og hitti aðeins úr 4 af 13 skotum.

Fyrsti leikur Cleveland og Orlando í úrslitum Austurdeildar verður á miðvikudagskvöldið í Cleveland, en heimamenn hafa ekki tapað leik í úrslitakeppninni. LeBron James og félagar unnu Detroit 4-0 í fyrstu umferð og Atlanta 4-0 í annari umferð.

Þetta er í fyrsta sinn sem Boston tapar sjö leikja seríu í úrslitakeppni eftir að hafa komist yfir 3-2, en fyrir þetta einvígi var Boston 32-0 í seríum þar sem liðið hafði náð áðurnefndri forystu.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×