Körfubolti

NBA í nótt: Cleveland vann Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mo Williams var öflugur í nótt.
Mo Williams var öflugur í nótt. Mynd/AP

Cleveland var ekki lengi að jafna sig á tapinu fyrir Charlotte í fyrrinótt þar sem liðið vann góðan sigur á sterku liði Dallas í gærkvöldi.

Cleveland vann leikinn, 111-95, þar sem þeir Mo Williams og LeBron James skoruðu 25 stig hvor. James gaf einnig tólf stoðsendingar í leiknum en Williams nýtti öll sjö þriggja stiga skotin sín.

Anderson Varejao skoraði fimmtán stig, þar af þrettán í síðari hálfleik en hann nýtti öll sjö skotin sín utan af velli í leiknum. Delonte West var einnig öflugur en hann skoraði tíu stig og tók tíu fráköst á 29 mínútum.

Hjá Dallas var Dirk Nowitzky stigahæstur með 27 stig og Jason Terry kom næstur með 25. Dallas hafði unnið fimm útileiki í röð fyrir leikinn.

Charlotte vann Washington, 92-76. Gerald Wallace var með fjórtán stig og fjórtán fráköst fyrir Charlotte og þeir Tyson Chandler og Raymond Felton tólf stig hvor.

Utah vann Portland, 108-92. Carlos Boozer var með 26 stig og tólf fráköst og Deron Williams 24 stig og fimmtán stoðsendingar. Þetta var fimmti sigur Utah í síðustu sex leikjum liðsins.

Orlando vann Milwaukee, 100-98. Vince Carter var með 25 stig, þar af nítján í seinni hálfleik. Dwight Howard var einnig með 25 stig en hann tók einnig 20 fráköst í leiknum.

LA Lakers vann Golden State, 130-97. Pau Gasol skoraði 22 stig en alls skoruðu sjö leikmenn Lakers tíu stig eða meira í leiknum. Þetta var fimmti sigur Lakers í röð.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×